Erlent

Mannskæðar árásir ISIS í Sýrlandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Meðal skotmarka ISIS-liða var fjölfarinn markaður.
Meðal skotmarka ISIS-liða var fjölfarinn markaður. Vísir/AP

Minnst 180 eru látnir eftir fjölda árása vígamanna Íslamska ríkisins í suðurhluta Sýrlands í dag. Gerðar hafa verið sprengju- og skotárásir og er þetta með mannskæðustu árásum hryðjuverkasamtakanna í Sýrlandi. Stjórnarher Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, og bandamenn hans herja nú á ISIS-liða í suðurhluta landsins og voru umræddar árásir gerðar í borginni Sweida og þorpum þar nærri.

Samkvæmt AFP fréttaveitunni hafa ISIS-liðar lýst fyrir ábyrgð á árásunum og segja hermenn samtakanna hafa ráðist á opinberar byggingar og öryggissvæði í Sweida og sprengt sig í loft upp. Vopnaðir menn brutust inn á heimili fólks í nærliggjandi þorpum og skutu þar fjölda fólks til bana.

Syrian Observatory for Human Rights, sem rekur umfangsmikið net heimildarmanna í Sýrlandi, segir 183 hafa fallið í árásunum og þar af 89 almenna borgara. Hinir 94 hafi barist fyrir ríkisstjórn Assad, að mestu leyti til að verja heimili sín, samkvæmt SOHR.

38 ISIS-liðar eru sagðir hafa verið felldir.

Íbúar Sweida tilheyra að mestu minnihlutahópi sem nefnist Druze og hefur bærinn sloppið tiltölulega vel í átökunum sem hafa átt sér stað í landinu frá 2011.
 Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.