Erlent

Dominic Raab nýr Brexitmálaráðherra

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Dominic Raab er nýr Brexitmálaráðherra.
Dominic Raab er nýr Brexitmálaráðherra. vísir/getty
Dominic Raab hefur verið skipaður nýr Brexitmálaráðherra í bresku ríkisstjórninni en David Davis sagði af sér embættinu í gærkvöldi vegna ágreinings um þá leið sem ákveðið var fyrir helgi að Bretland myndi fara við útgöngu sína úr Evrópusambandinu.

Raab hefur verið ötull talsmaður þess að Bretar gangi úr ESB og var í lykilhlutverki í kosningabaráttunni fyrir Brexit árið 2016. Hann hefur verið ráðherra húsnæðismála í ríkisstjórn Theresu May, forsætisráðherra og formanns Íhaldsflokksins.

Afsögn Davis í gær er talin áfall fyrir May en síðastliðinn föstudag var greint frá því að samkomulag hefði náðst um framtíðarsamband Bretlands við ESB eftir maraþonfund allra 26 ráðherranna í ríkisstjórn. Davis var skipaður Brexitmálaráðherra árið 2016 og var helsti samningamaður Bretlands í Brexit-viðræðunum við ESB.

Afsögnin kristalli það erfiða verka sem May á fyrir höndum

Samkomulagið felur í sér að samið verði um fríverslum með iðnaðar- og landbúnaðarvörur á milli Bretlands og ESB. Verður samningurinn byggður á því sem kallað hefur verið „sameiginlegt regluverk.“

Þarf May að sannfæra hörðustu stuðningsmenn Brexit um að samkomulagið sé rétta leiðin en um mýkri lendingu er að ræða en harðir Brexit-stuðningsmenn vilja sjá.

Segja má að afsögn Davis kristalli það erfiða verk sem May á fyrir höndum innan síns eigin flokks vegna smakomulagsins.

Davis sagði í viðtali við BBC í dag að hann væri ekki besta manneskjan til að fylgja eftir þeirri áætlun sem sett var upp í tengslum við samkomulagið þar sem hann trúir ekki á sjálft samkomulagið. Finnst honum að Bretland sé að gefa of mikið eftir of auðveldlega í samningaviðræðunum við ESB.

 

Nicola Sturgeon, forsætisráðherra Skotlands, og Carwyn Jones, forsætisráðherra Wales, segja að ringulreið ríki innan bresku ríkisstjórnarinnar. Þá hefur Richard Leonard, leiðtogi Verkamannaflokksins í Skotlandi, kallað eftir þingkosningum vegna þess sem hann segir einnig ringulreið innan ríkisstjórnar May.

Sjálf segist May ekki sammála því mati Davis að Bretland sé að gefa of mikið eftir of auðveldlega í viðræðunum við ESB. Hún mun koma fyrir þingið síðar í dag þar sem búast má við að þjarmað verði að henni vegna Brexit.

Fréttin var uppfærð klukkan 10:29.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×