Erlent

Spenna innan bresku ríkisstjórnarinnar fyrir Brexit-uppgjör

Kjartan Kjartansson skrifar
May forsætisráðherra hefur þurft að glíma við andóf í eigin röðum vegna Brexit.
May forsætisráðherra hefur þurft að glíma við andóf í eigin röðum vegna Brexit. Vísir/AP

Búist er við átakafundi hjá ríkisstjórn Theresu May forsætisráðherra Bretlands í dag. Hún gæti jafnvel þurft að kveða niður uppreisn Brexit-harðlínumanna vegna áætlunar sem hún hefur kynnt um framtíðartilhögun samskipta við ESB.

Íhaldsflokkur May hefur logað stafnanna á milli vegna viðræðna ríkisstjórnarinnar við fulltrúa Evrópusambandsins um hvernig samband Bretlands við það verður eftir útgönguna á næsta ári. May ætlar að kynna áætlun fyrir ráðherrum sínum í dag og reyna að ná samstöðu um hana.

Efni áætlunarinnar var hins vegar lekið í fjölmiðla í gær og er það ekki sagt hugnast harðlínumönnum innan stjórnarinnar. Sumir ráðherra, þar á meðal Evrópumálaráðherrann David Davis, hafa áður ítrekað hótað því að segja af sér þegar þeim hefur ekki þótt May ganga nógu hart fram.

Fá ekki að taka ráðherrabílinn heim ef þeir segja af sér

Hátt í þrjátíu meðlimir ríkisstjórnarinnar hittast í Chequers, sveitasetri forsætisráðherrans, um 65 kílómetrum norðvestur af London. AP-fréttstofan segir að engir símar séu leyfðir á fundinum. Viðræðurnar eiga að standa yfir í allan dag.

Orðrómar hafa verið um að harðlínumenn eins og Davis og Boris Johnson utanríkisráðherra gætu sagt af sér ef May fellur ekki frá áætlun sinni sem er sögð gera ráð fyrir að Bretland fylgi ESB-reglum um vöruviðskipti náið eftir útgönguna.

May virðist ekki að taka andófsmennina í ríkisstjórnina neinum vettlingatökum. Politico hefur eftir nánum bandamanni hennar að hún ætli hvergi að hvika. Ef einhverjir ráðherrar kjósi að segja af sér fái þeir ekki að fara á ráðherrabílum sínum aftur til London.

„Leigubílaspjöld fyrir Ashton-leigubíla, leigubílastöðina á svæðinu, eru í andyrinu fyrir þá sem ákveða að þeir geti ekki fengið sig til að taka rétta ákvörðun fyrir landið,“ hefur Politico eftir embættismanninum í Downing-stræti 10.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.