Erlent

Bandaríkin draga sig úr Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna

Atli Ísleifsson skrifar
Nikki Haley og Mike Pompeo á fréttamannafundinum í kvöld.
Nikki Haley og Mike Pompeo á fréttamannafundinum í kvöld. Vísir/AFP

Bandaríkin hafa dregið sig úr Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna. Frá þessu greindu Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, á sameiginlegum fréttamannafundi þeirra í kvöld.

Haley sakaði á síðasta ári ráðið um hlutdræga afstöðu gegn Ísrael og að Bandaríkin myndu taka aðild sína að ráðinu til endurskoðunar. Sagði hún það hafa verið erfitt að sætta sig við að ályktanir sem hafi beinst gegn Ísrael hafi verið samþykktar, á sama tíma og ekki væri verið að íhuga neinar ályktanir gegn stjórnvöldum í Venesúela. Þá sagði hún að Íran, „ríki með afleita sögu í mannréttindamálum“, ekki hafa verið nægilega gagnrýnt innan raða ráðsins.

Á fréttamannafundinum í kvöld kallaði Haley ráðið „safnþró pólitískrar hlutdrægni“, en lagði jafnframt áherslu á að ákvörðunin þýði ekki að Bandaríkin dragi úr skuldbindingum sínum á sviði mannréttindamála.

Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna var stofnað árið 2006 og hefur oft verið gagnrýnt fyrir að veita ríkjum, sem hafi ítrekað gert sek um mannréttindabrot, aðild.

Tilkynning Bandaríkjastjórnar kemur á sama tíma og uppi er hávær gagnrýni vegna stefnu hennar að aðskilja börn frá foreldrum sínum sem hafa farið yfir landamærin til Bandaríkjanna frá Mexíkó með ólöglegum hætti.

Zeid Ra'ad, mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna, er einn þeirra sem hefur gagnrýnt stefnu Trumpstjórnarinnar í málinu og sagt hana „svívirðilega“.


Tengdar fréttir

Trump ver stefnu sína í innflytjendamálum

Bandaríkjaforseti hefur varið þá stefnu stjórnar sinnar sem leitt hefur til aðskilnaðar þúsunda barna við foreldra sína á landamærunum Bandaríkjanna og Mexíkó.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.