Erlent

Trump ver „hættu­legasta fyrir­tæki Banda­ríkjanna“

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Höfuðstöðvar Sinclair í Maryland.
Höfuðstöðvar Sinclair í Maryland. Vísir/AP
Bandaríkjaforsetinn Donald Trump hefur tekið upp hanskann fyrir sjónvarpsrisann Sinclair Broadcast Group sem hefur mátt þola harða gagnrýni síðastliðna viku. Sinclair rekur um 200 staðbundnar sjónvarpsstöðvar víðsvegar um Bandaríkin og er sjónvarpsmönnum þeirra gert að flytja einræðu þar sem „falskar fréttir“ eru gagnrýndar.

Fá myndbönd fengu meira áhorf um páskahelgina en samantekt vefsins Deadspin á einræðu sjónvarpsmanna Sinclair-veldisins. Myndbandið má sjá hér að neðan en það sýnir hvernig tugir fréttamanna á ótal stöðvum flytja allir sömu töluna um óheiðarleika stærstu fréttamiðla Bandaríkjanna.

Fréttaskýrendum þykir myndbandið óþægilegt á hið minnsta tvo vegu. Annars vegar afhjúpi það augljósa slagsíðu Sinclair-veldsins, sem lengi hefur verið gagnrýnt fyrir íhaldssama hægrimennsku í ritstjórnarstefnu sinni.

Hins vegar segja þeir myndbandið til marks um það hvernig íhaldsöfl vestanhafs grafa markvisst undan stöndugum bandarískum fjölmiðlum. Það sé sérstaklega ógnvekjandi í þessu tilfelli þar sem rannsóknir benda til þess að Bandaríkjamenn treysti staðbundnum miðlum, sem flyja alla jafna fréttir af málum í nærumhverfi áhorfenda, betur en stóru fjölmiðlunum.

Útsendingar Sinclair-veldisins ná nú þegar inn á 38% bandarískra heimila og því um að ræða fjölmiðlaveldi í búningi hins traustvekjandi staðbundna miðils. Hefur Sinclair því stundum verið nefnt „hættulegasta bandaríska fyrirtækið sem þú hefur aldri heyrt um,“ sannkallaður úlfur í sauðagæru.

Ekki aðeins þurfa fréttamenn að lesa fyrrnefnda möntru heldur er sjónvarpsstöðvum Sinclair einnig skipað að sýna nokkra dagskrárliði, sem sagðir eru einkennast af sömu slagsíðu. Geri stöðvarnar það ekki megi þær búast við sektum frá móðurfélaginu og mótmæli fréttamenn eiga þeir á hættu að vera sagt upp.

Sinclair lýtur stjórn milljarðamæringsins David Smith sem er góður kunningi Bandaríkjaforseta. Það kom því ekki mörgu á óvart þegar Donald Trump kom vini sínum til varnar á Twitter um helgina.

Sinclair reynir nú að festa kaup á sjónvarpsstöðvum útsendingarfyrirtækisins Tribune Media. Gangi viðskiptin eftir munu fréttir Sinclair ná inn á heimili í 42 bandarískum borgum til viðbótar.

Einræða fréttamannanna myndi því birtast í 75% allra sjónvarpstækja vestanhafs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×