Erlent

Glee-stjarna flækt í barnaklámsmál finnst látin

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Mark Salling.
Mark Salling. Vísir/Getty
Leikarinn Mark Salling sem best er þekktur fyrir leik sinn í bandarísku sjónvarpsþáttunum Glee er látinn. Salling átti yfir höfði sér fjögurra til sjö ára fangelsisvist eftir að hann gekkst við því að hafa undir höndum kynferðislegar myndir og myndbönd tengdum börnum.

Hollywood Reporter greinir frá andláti Salling sem lék Noah Puckerman í Glee á árunum 2009 til 2015. Hann var handtekinn árið 2015 eftir húsleit af sérstöku teymi innan lögreglunnar í Los Angeles sem sérhæfir sig í netglæpum gegn börnum.

Hann var ákærður í maí árið 2016 vegna vörslu efnisins en við húsleitina fannst efni á fartölvu hans og USB-drifi. Búnaðurinn innihélt þúsundir mynda og myndbanda.

Á síðasta ári játaði hann sök í málinu eftir að hafa gert samkomulag við ákæruvöld í Los Angeles. Dæma átti hann í fangelsi í mars næstkomandi auk þess sem hann átti að vera á skrá yfir kynferðisglæpamenn í tuttugu ár.

Yfirvöld í Los Angeles þar sem Salling fannst látinn vilja ekkert gefa uppi um dánarorsök. TMZ hefur þó eftir heimildarmönnum sínum að Salling hafi framið sjálfsmorð. Hann var 35 ára gamall.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.