Enski boltinn

Hodgson efins um myndbandsdómara

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Roy Hodgson
Roy Hodgson vísir/getty
Myndbandsdómarar verða notaðir í fyrsta skipti í keppnisleik félagsliða á Englandi á mánudaginn þegar Crystal Palace mætir Brighton í úrvalsdeildarslag í þriðju umferð ensku bikarkeppninnar.

Roy Hodgson, knattspyrnustjóri Palace, er ekki of bjartsýnn á þessa nýjung. Hann var meðal áhorfenda á Álfukeppninni síðasta sumar þar sem notkun myndbandsdómara gekk ekki alltaf eftir óskum.

„Það var kaos þar, svo ef ég á að gefa mitt álit miðað við reynsly mína úr Álfukeppninni þá virkaði þetta ekki mjög vel þar því samskipti milli dómarans og mannsins á vélinni voru erfið,“ sagði Hodgson á blaðamannafundi fyrir leikinn við Brighton.

„Það vildi enginn marklínutækni og nú getum við ekki komist af án hennar, svo ég er klárlega ekki einn af þeim sem segja tækni ekki eiga neinn stað í fótboltanum. En hvernig leikurinn er, hvernig hann flýtur og hvernig áhorfendur vilja að hann fari fram, í hvert skipti sem leikmaður meiðist og þarf að fá aðhlynningu verða stuðningsmennirnir pirraðir. En ef þeir ná að fá þetta allt til þess að fljóta vel saman og það kemur í veg fyrir ósanngirni þá hef ég ekkert á móti þessu.“

Hann er þó ekki sannfærður um að myndbandsdómgæsla muni hjálpa í því að koma í veg fyrir ósanngirni.

„Oft þegar dæmi eru tekin fyrir í sjónvarpinu og skoðað hvort það hafi átt að vera vítaspyrna eða rangstaða þá er ekki hægt að komast að niðurstöðu því einn segir já og annar nei,“ sagði Roy Hodgson.

Leikur Brighton og Crystal Palace verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport á mánudagskvöld og hefst útsending klukkan 19:35.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×