Erlent

Odinga fer ekki aftur í forsetaframboð í Keníu

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Raila Odinga vill að hætt sé við forsetakosningarnar.
Raila Odinga vill að hætt sé við forsetakosningarnar. vísir/afp
Stjórnarandstöðuleiðtoginn Raila Odinga verður ekki á kjörseðlinum þegar Keníumenn ganga til kosninga síðar í mánuðinum. Odinga laut í lægra haldi fyrir sitjandi forseta, Uhuru Kenyatta, í ágúst. Fékk Kenyatta 54 prósent atkvæða en Odinga 45 prósent. Þar sem þær kosningar voru dæmdar ólöglegar stóð til að kjósa aftur þann 26. október næstkomandi.

Í tilkynningu frá flokki Odinga kemur fram að vegna ákvörðunar hans kveði reglur á um að það þurfi að hætta við kosningarnar. Það muni gefa óháðum aðilum nægan tíma til þess að leggjast í umbætur á kosningakerfinu svo hægt sé að halda sanngjarnar og löglegar kosningar. Samkvæmt úrskurði hæstaréttar frá því í ágúst voru ógildu kosningarnar ógagnsæjar og niðurstöðurnar ósannreynanlegar.

„Eftir að hafa skoðað stöðu okkar vandlega með tilliti til væntanlegra kosninga teljum við að það þjóni hagsmunum Keníumanna best að flokkurinn dragi forsetaframboð sitt til baka,“ sagði Odinga á blaðamannafundi.

Sitjandi ríkisstjórn Keníu heldur því hins vegar fram að kosningar geti farið fram þann 26. október og sigurvegari þeirra verði svo svarinn inn í embætti. Odinga heldur því fram að enginn raunverulegur vilji sé til úrbóta á meðal stjórnarliða.

Odinga kallaði eftir mótmælum í gær. Studdist hann við slagorðið „Engar umbætur = engar kosningar“. Hann, sem og flokkabandalagið sem hann er í forsvari fyrir, hafði áður sagt að ekkert yrði af framboði Odinga nema í umbætur yrði ráðist.

Strax í kjölfar kosninga ágústmánaðar krafðist Odinga þess að niðurstöður kosninganna yrðu ógiltar. Hann sagðist jafnframt hafa grun um að brögð væru í tafli strax á kjördag.

Alþjóðlegir eftirlitsaðilar mátu kosningarnar hins vegar löglegar áður en hæstiréttur ógilti niðurstöðu þeirra. Eftirlitsaðilar á vegum Evrópusambandsins sögðu þær til að mynda rétt framkvæmdar þótt fjöldi ógildra kjörseðla væri áhyggjuefni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×