Erlent

Dóminíka vönkuð og einangruð frá umheiminum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Þúsundir trjáa á víð og dreif tóku á móti íbúum höfuðborgarinnar Roseau þegar þeir hættu sér loks út í morgun.
Þúsundir trjáa á víð og dreif tóku á móti íbúum höfuðborgarinnar Roseau þegar þeir hættu sér loks út í morgun. Vísir/Getty
Yfirvöld á Dóminíku segja eyjuna „vankaða“ eftir að fellibylurinn María gekk þar yfir. Tjónið sé mikið; hundruð bygginga ónothæfar, rafmagnslaust sé á nánast allri eyjunni, ekkert rennandi vatn og þá sé símasamband nær algjörlega horfið.

Hið minnsta sjö fórust á Dóminíku en gert er ráð fyrir því að fleiri munu finnast látnir þegar björgunarsveitum tekst að komast að einangraðari byggðum eyjunnar.

Dóminíka er syðsta eyjan í Hléborðseyjaklasanum í Karíbahafi og sú fyrsta til að verða fyrir barðinu á Maríu sem var fimmta stigs fellibylur þegar hún gekk þar yfir. Hún gengur nú yfir Púertó Ríkó sem fjórða stigs fellibylur, sá fyrsti sem gengur þar á land síðan 1932.

Aðstoðarmaður forsætisráðherrans Roosevelt Skerrit, sem lýsti því hvernig María reif þakið af húsi hans á mánudag, sagði Dóminíku vera nær algjörlega einangraða frá umheiminum. Samskiptainnviðir séu algjörlega lamaðir og standi eyjaskeggjum fá úrræði til boða vilji þeir lýsa aðstæðum á Dóminíku.

Sjá einnig: Reif þakið af húsi forsætisráðherrans

Aðstoðarmaðurinn segir að forsætisráðherranum heilsist vel eftir raunir mánudagsins. „Það er í lagi með hann og fjölskyldu hans - hið sama er ekki hægt að segja um Dóminíku,“ segir í yfirlýsingu.

Stopull fréttaflutningur frá eyjunni greinir frá „gjöreyðileggingu“ heilu hverfanna þar sem hús, vegir og uppskera eru sögð ónothæf með öllu. „Í stuttu máli; eyjan eru rústir einar.“

Hópur á vegum CNN, sem flaug yfir eyjuna í morgun, segja að ekkert tré á Dóminíku sé óhreyft. „Þúsundir trjáa eru sem tannstönglar á víð og dreif og allur gróður virðist hafa verið rifinn upp með rótum. Regnskógarnir virðast hafa gufað upp.“

Erfitt sé að finna hús á eyjunni sem ekki er stórskaddað eftir Maríu. Flugvellir og hafnir Dóminíku eru enn lokaðar. Vonast er til að hægt verði að opna hið minnsta eina lendingarbraut svo hægt verði að flyja hjálpargögn til eyjunnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×