Erlent

Norður-Kórea staðfestir kjarnavopnatilraun

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Ríkismiðlil Norður-Kóreu greindi frá tilrauninni nú í morgun. Íbúar í Asíu fylgdust með í beinni útsendingu.
Ríkismiðlil Norður-Kóreu greindi frá tilrauninni nú í morgun. Íbúar í Asíu fylgdust með í beinni útsendingu. Vísir/Getty
Ríkismiðill Norður-Kóreu segir yfirvöld þar í landi hafa gert tilraun með kjarnorkuvopn. Moon Jae-In, forseti Suður-Kóreu hefur kallað saman öryggisráð sitt vegna málsins en jarðskjálfti af stærðinni 6,3 mældist í Norður-Kóreu og er hann talinn hafa verið af völdum sprengjunnar.

Fregnir af skjálftanum komu aðeins nokkrum klukkutímum eftir að ríkismiðill Norður-Kóreu hafði birt myndir af Kim Jong-un skoða vetnissprengju. Sprengjunni var í gær lýst sem „fjölhagnýtri vetnissprengju með gríðarlegan eyðileggingarmátt sem jafnvel er hægt að sprengja í mikilli hæð.“

Norður-Kórea hefur lengi haft það að yfirlýstu markmiði að koma fyrir svokölluðum „kjarnaoddi“ á langdræga eldflaug sem næði til skotmarka um allan heim.

Fyrsta tilraunin í tíð Trump

Þetta er í sjötta sinn sem yfirvöld staðfesta tilraun með kjarnorkuvopn í Norður-Kóreu. Síðast gerðu Norður-Kóreumenn tilraun með kjarnorkuvopn í september árið 2016. Ríkið hefur ítrekað farið gegn reglugerð Sameinuðu þjóðanna og þrýstingi frá alþjóðasamfélaginu um meðhöndlun kjarnorkuvopna.

Kim Jong-un í sjónvarpsskjá í Suður-Kóreu.Vísir/Gety
Þetta er jafnframt í fyrsta sinn sem ríkið gerir kjarnavopnatilraun í forsetatíð Donalds Trump en hann hefur verið harðorður í garð ríkisins og leiðtoga þess. Hann sagði meðal annars í síðustu viku að það viðræður væru ekki lausnin við deilunni á Kóreuskaga. 

James Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna er þessu ósammála. Hann sagði í viðtal við fjölmiðla í síðustu viku að Bandaríkin eigi ávallt völ á að leysa málin eftir diplómatískum leiðum þegar kemur að Norður-Kóreu.

Vladimir Pútín forseti Rússlands varaði við því á föstudag að mikil spenna á milli Bandaríkjanna og Norður-Kóreu gæti leitt til umfangsmikilla átaka á Kóreuskaganum. Hann sagði rangt að beita einræðisríkið þrýstingi vegna kjarnorkuvopna- og eldflaugaáætlunar þeirra.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×