Erlent

Mattis ósammála Trump varðandi Norður-Kóreu

Atli Ísleifsson skrifar
James Mattis og Song Young-moo, varnarmálaráðherrar Bandaríkjanna og Suður-Kóreu funduðu í gær.
James Mattis og Song Young-moo, varnarmálaráðherrar Bandaríkjanna og Suður-Kóreu funduðu í gær. Vísir/AFP
James Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, segir að Bandaríkin eigi ávallt völ á að leysa málin eftir diplómatískum leiðum þegar kemur að Norður-Kóreu.

Þetta sagði varnarmálaráðherrann og hershöfðinginn fyrrverandi þegar hann var spurður út í yfirlýsingu Donalds Trump forseta, sem sagði á Twittersíðu sinni í gær, að ekki þýði lengur að ræða við stjórnvöld í Norður Kóreu. Forsetinn sagði þetta hafa verið reynt í aldarfjórðung og engu skilað. Varnarmálaráðherrann er því opinberlega ósammála forseta sínum.

Rússar hafa einnig varað Bandaríkjamenn við því að bregðast við hegðun ráðamanna í Pyongyang með hervaldi sem þeir segja geta haft ófyrirséðar afleiðingar.

Ástandið á Kóreuskaga er mjög eldfimt í kjölfar nýjasta eldflaugaskots Norður-Kóreumanna sem flaug yfir Japan og fór svo í sjóinn um 1.180 kílómetrum austur af strönd Hokkaido-eyju.

„Nei, við erum aldrei uppiskroppa með að leysa mál eftir diplómatískum leiðum,“ sagði Mattis á fundi með blaðamönnum eftir fund hans og starfsbróðursins suðurkóreska, Song Young-moo, í gær.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×