Enski boltinn

Everton sagði nei við Chelsea

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ross Barkley í leik með Everton.
Ross Barkley í leik með Everton. Vísir/Getty
Chelsea lagði fram tilboð í Ross Barkley upp á 25 milljónir punda, jafnvirði 3,4 milljarða króna, sem hefur nú verið hafnað. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

Barkley hefur hafnað nýjum samningi við Everton en núverandi samningur rennur út í lok leiktíðar. Everton vill fá 50 milljónir punda fyrir kappann en ólíklegt er að hann verði seldur á svo háa upphæð úr þessu.

Meiðsli flækja stöðu mála enn frekar en ólíklegt að hann spili næstu þrjá mánuðina vegna meiðsla aftan í læri.

Ronald Koeman, stjóri Everton, sagði í síðasta mánuði að hann reiknaði 100 prósent með því að Barkley myndi fara frá félaginu.

Síðasti félagaskiptadagurinn í Englandi er á morgun og líklegt að eitthvað muni gerast í málum Barkley þá.

Barkley er uppalinn hjá Everton en þessi 23 ára kappi lék sinn fyrsta leik fyrir félagið árið 2010. Hann á að baki alls 179 leiki í öllum keppnum og hefur skorað í þeim 27 mörk.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×