Enski boltinn

Clement: Félagið í limbói út af Gylfa

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Clement ræðir hér við Gylfa Þór.
Clement ræðir hér við Gylfa Þór. Vísir/Getty
Keppni í ensku úrvalsdeildinni  hefst í dag en í Swansea er um fátt annað rætt en mögleg sala félagsins á Gylfa Þór Sigurðssyni á Everton, eins og ítarlega hefur verið fjallað um í allt sumar.

Gylfi fór ekki með Swansea í æfingaferð félagsins til Bandaríkjanna og spilaði lítið sem ekkert með liðinu á undirbúningstímabilinu. Þá var gefið út í gær að hann verði ekki í leikmannahópi Swansea á morgun er liðið mætir Southampton.

„Þetta er pirrandi staða, ég get ekki sagt annað,“ sagði Paul Clement, stjóri Swansea, við enska fjölmiðla í gær. „Ég er með virkilega góðan leikmann en það hefur verið ákveðið að það sé öllum fyrir bestu að hann spili ekki í þessum leik.“

„Þetta er ekki kjörstaða. Við erum í limbói með mjög góðan leikmann. Ég hef sagt þetta allan tímann - við viljum fá lausn í þetta mál sem allra fyrst. Það er það sem allir vilja.“

Gylfi fagnar marki með félögum sínum í Swansea.vísir/getty
Clement sagði enn fremur að félagið væri búið að gera samkomulag um kaup á leikmönnum til að fylla í skarð Gylfa. Í gær bárust þær fregnir að Swansea hefði boðið í Joe Allen, leikmann Stoke, en að tilboðinu hafi verið hafnað.

Clement sagði enn fremur að félagi vilji halda Fernando Llorente, framherjanum sem spilaði vel með Swansea á síðustu leiktíð.

„Ég hef rætt við Fernando og er sannfærður um að hann viji vera þetta tímabil og lengur,“ sagði Clement en samningur Spánverjans rennur út næsta sumar. „Hann er ánægður hér, er ánægður með starfið sem er unnið hér og líkar vel við leikstíl liðsins.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×