Enski boltinn

Var með fallegasta brosið í fótboltanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cheick Tiote fagnar marki sínu á móti Arsenal árið 2011.
Cheick Tiote fagnar marki sínu á móti Arsenal árið 2011. Vísir/Getty
Steve McClaren, fyrrum knattspyrnustjóri Newcastle United, hafði falleg orð að segja um miðjumanninn Cheick Tiote sem lést í gær eftir að hafa hneigið niður á æfingu hjá kínversku liði sínu.

Cheick Tiote var þrítugur en hann spilaði áður með Newcastle og var í herbúðum liðsins þegar síðasta tímabil hófst. Tiote fór hinsvegar til Beijing Enterprises í Kína í febrúar.

„Þegar ég var hjá Newcastle þá vissi ég að heimurinn væri í lagi þegar ég sá [Papiss] Cisse og Cheick brosa,“ sagði Steve McClaren í viðtali við BBC og bætti við: „Hann var með fallegasta brosið í fótboltanum,“ sagði McClaren.

„Hann var leikmaður sem allir vildu hafa í sínu liði,“ sagði Steve McClaren og hann ætti að þekkja það enda spilaði Cheick Tiote fyrir hann hjá bæði FC Twente og Newcastle. Cheick Tiote var landsliðsmaður Fílabeinsstrandarinnar.

„Ég kynntist honum fyrst þegar hann var ungur leikmaður hjá Twente. Hann var harðasti leikmaðurinn sem ég hef séð. Inn á vellinum og á æfingum var hann svo mikill keppnismaður. Hann ætlaði sér að vinna alla leiki, allar keppnir og allar tæklingar,“ sagði McClaren.

„Hann var svo mikill keppnismaður að ég þurfti stundum að taka hann af æfingunum. Hann var algjör stríðsmaður og sigurvegari,“ sagði McClaren.

„Það var hans draumur að spila í Kína og ég var svo ánægður fyrir hans hönd þegar það gekk upp. Hann náði einnig að vinna sér inn pening fyrir fjölskyldu sína,“ sagði McClaren.

„Hann elskaði að spila fótbolta og sjá fyrir fjölskyldu sinni í leiðinni. Öll skyldmennin, frændurnir, frænkurnar, afar hans og ömmur treystu öll á hann,“ sagði McClaren.

Steve McClaren minntist líka dagsins þegar Newcastle kom til baka eftir að hafa lent 4-0 undir á móti Arsenal. Cheick Tiote skoraði einmitt jöfnunarmarkið í þeim ótrúlega leik.

„Lífið er stundum ekki sanngjarnt. Ég mun minnast Cheick Tiote sem frábærs miðjumanns sem ég elskaði að stýra. Hvíldu í friði, vinur minn,“ sagði McClaren.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×