Enski boltinn

Ekki sammála fullyrðingu Glenn Hoddle um Gylfa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. Vísir/Getty
Glenn Hoddle, fyrrum leikmaður og þjálfari enska landsliðsins í knattspyrnu, er mjög hrifinn af Gylfa Þór Sigurðssyni og talaði afar vel um íslenska miðjumanninn þegar Hoddle var að lýsa leik Everton og Swansea City um síðustu helgi.

Gylfi náði ekki að skora eða leggja upp mark í leiknum en var nokkrum sinnum nálægt því og Swansea vann þarna mikilvægan 1-0 sigur. Frammistaða Gylfa á tímabilinu hefur verið mögnuð og hans framtíðarplön eru mikið í umræðunni í enskum fjölmiðlum.

Hoddle lýsti því yfir í lýsingunni um helgina að Gylfi myndi labba inn í hvaða lið sem er í ensku úrvalsdeildinni og þar með talið væru öll bestu lið ensku úrvalsdeildarinnar.

Flestir eru sammála um að Gylfi hafi verið frábær á tímabilinu og það efast enginn um mikivægi hans fyrir Swansea-liðið. Sú fullyrðing að hann komst í byrjunarliðin hjá liðum eins og Chelsea, Tottenham, Manchester City, Manchester United, Arsenal og Liverpool þykir þó einum knattspyrnuspekingi vera skot yfir markið hjá Hoddle.

Ben McAleer, yfirmaður á knattspyrnutölfræðisíðunni Who Scored, skrifaði útpældan pistil um Gylfa Þór Sigurðsson  á football365.com síðunni og þar fór McAleer yfir möguleika Gylfa á því að komast í byrjunarliðið hjá bestu liðum ensku úrvalsdeildarinnar.

McAleer er á því að Gylfi ætti aðeins möguleika á því að komast inn í Liverpool-liðinu og þá aðeins í svipað hlutverk og Gini Wijnaldum sem kemur með sóknarógnun af þriggja manna miðju. Með öðrum orðum Gylfi fengi ekki að spila sína bestu stöðu hjá bestu liðunum og væri allt annað en öruggur með sætið sitt í byrjunarliðinu.

McAleer fer yfir sögu Gylfa hjá Tottenham þar sem hann fékk ekki alltof mörg tækifæri og spilaði nær aldrei sína stöðu. Það hjálpaði ekki til að allt snérist um að Gareth Bale fengi pláss til að blómstra.

Gylfi hefur átt þátt í 51 prósent marka Swansea á leiktíðinni (9 mörk og 12 stoðsendingar) og McAleer er svo sem sammála því að Gylfi hafi unnið sér inn tækifæri til að spila með einu af bestu liðum ensku úrvalsdeildarinnar. Hvort það sé raunhæft sé aftur á móti önnur saga.

Stærsta ástæðan fyrir þessari skoðun Ben McAleer er að bestu liðin eru öll með öfluga menn í uppáhaldsstöðu Gylfa. Þetta eru menn eins og David Silva hjá Manchester City, Christian Eriksen hjá Tottenham, Mesut Özil hjá Arsenal og Juan Mata hjá Manchester United.

McAleer segist ekki verða að reyna að gera lítið úr Gylfa heldur er hann aðeins að setja saman kalt mat á stöðu íslenska landsliðsmannsins í hópi þeirra bestu.

McAleer er á því að Gylfi sé mjög góður leikmaður en skorti það sem þurfti til að vera frábær leikmaður. Hann spili best þegar sóknarleikur liðs sé byggður í kringum hann eins og hjá Swansea en að svo verði aldrei raunin hjá einu af sex bestu liðum ensku úrvalsdeildarinnar. Hann endar síðan pistill sinn á því að nefna Everton sem gott lið fyrir Gylfa okkar Sigurðsson.


Tengdar fréttir

Gylfi sló met Eiðs Smára á Old Trafford

Gylfi Þór Sigurðsson skoraði ekki bara stórglæsilegt og mjög mikilvægt mark fyrir Swansea um síðustu helgi heldur bætti hann einnig með því fimmtán ára met Eiðs Smára Guðjohnsen. Gylfi hefur nú komið að 21 marki í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu.

Árlegt hjá Gylfa á Old Trafford

Aukaspyrnumark Gylfa Þórs Sigurðssonar tryggði Swansea City stig gegn Manchester United á Old Trafford. Hann hefur nú skorað á þessum velli þrjú ár í röð. Stigið sem Gylfi tryggði gæti reynst Svönunum dýrmætt.

Gylfi í liði umferðarinnar hjá ESPN

Gylfi Þór Sigurðsson er í liði umferðarinnar í ensku úrvalsdeildinni hjá ESPN fyrir frammistöðu sína í leik Swansea City og Manchester United í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×