Enski boltinn

Gylfi og félagar gætu mætt Hull í úrslitaleik um áframhaldandi sæti í ensku úrvalsdeildinni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gylfi hefur verið besti leikmaður Swansea á tímabilinu.
Gylfi hefur verið besti leikmaður Swansea á tímabilinu. vísir/getty
Svo gæti farið að Swansea City og Hull City þyrftu að mætast í hreinum úrslitaleik um það hvort liðið heldur sér í ensku úrvalsdeildinni.

Ef Swansea og Hull enda með jafn mörg stig, jafn hagstæða markatölu og jafn mörg skoruð mörk kveða reglur ensku úrvalsdeildarinnar á um að þau þurfi að mætast í hreinum úrslitaleik á hlutlausum velli um áframhaldandi sæti í deildinni.

Hull er tveimur stigum á undan Swansea þegar bæði lið eiga þrjá leiki eftir. Swansea er með 29 mörk í mínús en Hull 31 mark. Velska liðið hefur skorað 40 mörk í vetur en Tígrarnir 36 mörk.

Aldrei áður í sögu ensku úrvalsdeildarinnar hefur þurft að grípa til úrslitaleiks af þessu tagi. Það hefur þó tvisvar sinnum komið til tals. Fyrst árið 1996 þegar talsverðar líkur voru á því að Manchester United og Newcastle United myndu enda jöfn á toppi deildarinnar og síðan fyrir fjórum árum þegar Arsenal og Chelsea gátu endað jöfn í 3. sæti deildarinnar sem gaf þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu.

Gylfi Þór Sigurðsson og félagar í Swansea mæta Everton á heimavelli á laugardaginn, sækja svo botnlið Sunderland heim 13. maí og mæta svo West Brom á heimavelli í lokaumferðinni 21. maí.

Hull á eftir að mæta Sunderland (heima), Crystal Palace (úti) og Tottenham (heima).


Tengdar fréttir

Árlegt hjá Gylfa á Old Trafford

Aukaspyrnumark Gylfa Þórs Sigurðssonar tryggði Swansea City stig gegn Manchester United á Old Trafford. Hann hefur nú skorað á þessum velli þrjú ár í röð. Stigið sem Gylfi tryggði gæti reynst Svönunum dýrmætt.

Gylfi í liði umferðarinnar hjá ESPN

Gylfi Þór Sigurðsson er í liði umferðarinnar í ensku úrvalsdeildinni hjá ESPN fyrir frammistöðu sína í leik Swansea City og Manchester United í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×