Enski boltinn

Pochettino brjálaður út í Xavi: „Hann er óvinur minn og hann hatar mig“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Mauricio Pochettino var ekki skemmt.
Mauricio Pochettino var ekki skemmt. vísir/getty
Dele Alli, miðjumaður Tottenham í ensku úrvalsdeildinni, var á dögunum kjörinn besti ungi leikmaður deildarinnar annað árið í röð og fékk hann mikið lof frá Xavi Hernández, fyrrverandi leikmanni Barcelona, sem er mikill aðdáandi.

Xavi sagði Dele Alli ekki bara besta enska leikmanninn í dag heldur einn þann besta í Evrópu. „Við erum að horfa á einstakan leikmann,“ sagði Xavi sem er sjálfur einn sá besti í sögunni.

Xavi sagði Dele Alli vera leikmaður sem Pep Guardiola vill hafa í sínu liði og telur það líklegt að sinn fyrrverandi þjálfari ætli að kaupa enska miðjumanninn af Tottenham í sumar.

Það er vægt til orða tekið þegar sagt er að Pochettino hefur nákvæmlega engan húmor fyrir þessari tilraun til að afvegaleiða Tottenham-liðið með því að orða einn besta mann liðsins við City.

Pochettino, sem mætti Xavi oft sem leikmaður og þjálfari Espanyol í Katalóníuslag, hellti sér yfir Börsunginn á blaðamannafundi sínum í gær.

„Hann er á þeim stað í lífinu þar sem hann elskar að tala. Hann er í Doha [að spila fyrir Al Sadd]. Hlustið á mig, hann var leikmaður Barcelona og er óvinur minn,“ sagði Argentínumaðurinn.

„Hann reyndi að trufla einbeitingu okkar því hann hatar mig. Hann er fyrrverandi leikmaður Barcelona og er stuðningsmaður liðsins. Ég þekki Xavi mjög vel og spilaði oft á móti honum þegar ég var hjá Espanyol,“ sagði Mauricio Pochettino.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×