Erlent

Pútín fordæmir árás Bandaríkjanna á Sýrland

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Bandaríkjaher skaut í gærkvöldi 59 Tomahawk eldflaugum að herflugvelli í Sýrlandi.
Bandaríkjaher skaut í gærkvöldi 59 Tomahawk eldflaugum að herflugvelli í Sýrlandi. Vísir/Getty
Vladímír Pútín forseti Rússlands hefur fordæmt árás Bandaríkjanna á Sýrland. Bandaríkjaher skaut í gærkvöldi 59 Tomahawk eldflaugum að herflugvelli í Sýrlandi. Pútín segir árásina stríða gegn alþjóðalögum og að hún hafi skaðað samband Bandaríkjanna og Rússlands. Breska ríkisstjórnin styður árásina.

Dimitry Peskov, talsmaður rússnesku ríkisstjórnarinnar, sagði Pútín, sem er dyggur stuðningsmaður Bashar al-Assad forseta Sýrlands, líta á árásina sem tilefnislausa árás gegn lýðræðissríki til að beina sjónum heimsins frá dauðsfalli óbreyttra borgara í Írak.

Þá sagði hann einnig að rússnesk yfirvöld stæðu ekki í þeirri trú að efnavopn væri að finna í Sýrlandi og að slíkar árásir hafi skaðleg áhrif á baráttuna gegn hryðjuverkum.

Bretar lýsa yfir stuðningi

Yfirvöld í Bretlandi hafa lýst yfir stuðningi við árásina. Í yfirlýsingu frá bresku ríkisstjórninni sagði að árásin væri „viðeigandi viðbragð við ósiðmenntaðri efnavopnaárás sýrlenskra yfirvalda.“

Bandaríkin gerðu fyrst árásir í Sýrlandi árið 2014 en þær hafa allar beinst gegn Íslamska ríkinu.

Um er að ræða mikinn viðsnúning fyrir ríkisstjórn Donald Trump. Þegar átökin hófust í Sýrlandi lýsti Trump því yfir að hann væri verulega mótfallinn því að Bandaríkin skiptu sér af málum í Sýrlandi. Rússland og Íran hafa staðið við bakið á Assad.


Tengdar fréttir

Gerðu árás á Sýrland

Bandaríski herinn skaut í kvöld um 50 Tomahawk eldflaugum að herflugvelli í Sýrlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×