Erlent

Gerðu árás á Sýrland

Samúel Karl Ólason skrifar
Eldflaugunum var meðal annars skotið frá tundurspillinum USS Ross.
Eldflaugunum var meðal annars skotið frá tundurspillinum USS Ross. Vísir/AFP
Bandaríski herinn skaut í kvöld 59 Tomahawk eldflaugum að herflugvelli í Sýrlandi. Þetta er fyrsta beina og vísvitandi árás Bandaríkjanna gegn Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, og er gerð í kjölfar ásakana um að stjórnarher hans hafi beitt efnavopnum gegn almennum borgurum á þriðjudaginn. Bandaríkin gerðu fyrst árásir í Sýrlandi árið 2014 en þær hafa allar beinst gegn Íslamska ríkinu.

Um er að ræða mikinn viðsnúning fyrir ríkisstjórn Donald Trump. Þegar átökin hófust í Sýrlandi lýsti Trump því yfir að hann væri verulega mótfallinn því að Bandaríkin skiptu sér af málum í Sýrlandi. Rússland og Íran hafa staðið við bakið á Assad.

Eldflaugunum var skotið frá tveimur tundurspillum í Miðjarðarhafi og var skotmarkið herflugvöllur sem kallast Shayrat og er í Homs héraði. Samkvæmt Washington Post er talið að flugvélunum sem notaðar voru til efnavopnaárásarinnar hafi verið flogið þaðan.

Ríkissjónvarp Sýrlands segir árásin hafi valdið mannfalli.

Trump ræddi við blaðamenn þar sem hann er staddur í Flórída ásamt Xi-Jinping, forseta Kína. Hann sagði að margra ára tilraunir til að reyna að fá Assad til að breyta hegðun sinni hefðu misheppnast og það illa. Hann segist kalla eftir því að „allar siðmenntaðar þjóðir“ stöðvi „slátrunina“ í Sýrlandi.

Fyrr í kvöld höfðu Rússar varað við „neikvæðum afleiðingum“ ef Bandaríkin gerðu árás á Sýrland. Vladimir Safronkov, aðstoðarsendiherra Rússlands hjá Sameinuðu þjóðunum, sagði að ábyrgðin yrði að vera á herðum þeirra sem fyrirskipuðu árásir.

Hernaðaryfirvöld Bandaríkjanna segja að Rússar hafi verið látnir vita af árásinni skömmu áður en hún var gerð. Talsmenn Pentagon segja einnig að ekki hafi verið miðað á það svæði herstöðvarinnar þar sem rússneskir hermenn eru taldir hafa verið.

Lesa má yfirlýsingu Trump hér að neðan.

Tengdar fréttir

Tugir létust í efnavopnaárás í Sýrlandi

Talið er að að minnsta kosti 67 manns, þar af fjöldi barna, hafi látist í efnavopnaárás á bæinn Khan Sheikhun Idlib-héraði í Norður-Sýrlandi í dag. Þá er talið að yfir 200 manns hafi særst í árásinni.

Á sjötta tug fórust í efnavopnaárásinni

Talið er að saríngasi hafi verið varpað á íbúa sýrlenska bæjarins Khan Sheikhoun. Sýrlenski herinn neitar því að hafa beitt efnavopnum. Stjórnarandstaðan fer fram á tafarlausa rannsókn öryggisráðs SÞ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×