Erlent

Samþykkja að setja 1000 milljarða norskra króna í samgöngur á næstu tólf árum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Norska ríkisstjórnin, með stuðningi þeirra tveggja flokka sem verja hana falli, hefur samþykkt nýja samgönguáætlun fyrir Noreg til næstu tólf ára.

Samkvæmt henni er áætlað að um 1000 millljarðar norskra króna fari í samgöngubætur á tímabilinu en inni í áætluninni eru meðal annars fyrstu skipagöng í heimi sem fjallað hefur verið um í fréttum Stöðvar 2 og er talið að þau muni kosta um 2,7 milljarða norskra króna.

Í frétt á vef NRK segir að samgöngumál hafi verið eitt af aðaláherslumálum ríkisstjórnar Hægri flokksins og Framfaraflokksins þegar þeir tóku við völdum árið 2013. Reynir Jóhannesson, aðstoðarsamgönguráðherra, segir í samtali við Vísi að á hverju ári síðan þá hafi ríkisstjórnin sett meira fé í samgöngur.

Nú sé hins vegar komin fram áætlun þar sem horft er lengra fram í tímann en Stórþingið þarf svo að samþykkja hana. Áætlunin tekur til allra samgangna nema flugvalla að sögn Reynis og fer mestur hluti fjármagnsins í vegi. Þá fer einnig mikið í að bæta járnbrautakerfi landsins.

„Fyrstu sex árin eru nokkuð nákævmlega útlistuð í áætluninni og ná til verkefna sem eru að fara af stað. Svo eru síðari sex árin meira verkefni sem er kannski enn verið skipuleggja og teikna,“ segir Reynir sem kom að gerð áætlunarinnar.

Hann segir að aldrei hafi verið sett jafnmikið fé í járnbrautkerfið og þrátt fyrir að stjórnvöld stefni á að ljúka við gerð hraðbrautakerfis í Noregi þá verði aldrei pláss fyrir alla bílana, ekki hvað síst í stórum borgum á borð við Osló og Bergen.

„Þá verðum við að vera með góðar lestarsamgöngur til að flytja fólk inn og úr bæði Osló, Bergen og Þrándheimi,“ segir Reynir.

Á meðal þeirra úrbóta sem gera á járnbrautakerfinu eru ný lestargöng í Osló. Álagið á núverandi göngum er of mikið en með nýju göngunum verður hægt að fjölga lestum, lestarferðum og þar með lestarfarþegum.


Tengdar fréttir

Norðmenn áforma jarðgöng fyrir skip

Fyrstu jarðgöng veraldar fyrir skip eru nú í undirbúningi í Noregi. Þeim er ætlað að sneiða framhjá einni hættulegustu siglingaleið Evrópu, leiðinni fyrir Stað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×