Erlent

Norska stjórnin hefur samþykkt nýstárlegar stórframkvæmdir í samgöngum

Skipagöngin verða 1,7 kílómetra löng, 37 metrar á hæð og 36 metrar á heildarbreiddina.
Skipagöngin verða 1,7 kílómetra löng, 37 metrar á hæð og 36 metrar á heildarbreiddina. Mynd/stad skipstunnel
Norðmenn ætla að gera skipagöng í gegnum skagann Staðarnes, Stad, sem er í vesturhluta Noregs, nyrst í Sogni og Firðafylki. Skipaskurðir eru algengir en þetta verða fyrstu skipagöng sögunnar.

Göngin verða 1,7 kílómetrar þar sem nesið er mjóst, sem jafnframt er innst á nesinu. Reiknað er með að hundrað skip eigi að geta siglt í gegnum göngin á hverjum sólarhring.

Heildarkostnaður er áætlaður 2,1 milljarður norskra króna, en það jafnast á við ríflega 35 milljarða íslenskra. Byggingartíminn er áætlaður fjögur til fimm ár.

Göngin sjálf verða 37 metrar á hæð, eða álíka og hálf hæð Hallgrímskirkjuturns, og 36 metrar á breidd, en skipaskurðurinn innan þeirra verður 26,5 metra breiður og 12 metra djúpur.

Siglingaleiðin fyrir vestasta hluta Noregs styttist þar með til muna og verður jafnframt öruggari því verstu veðrin eru einmitt við utanvert nesið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×