Enski boltinn

Enginn miðjumaður í ensku úrvalsdeildinni býr til fleiri mörk en Gylfi Þór

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson skorar vanalega á móti stórliðunum.
Gylfi Þór Sigurðsson skorar vanalega á móti stórliðunum. vísir/getty
Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður Swansea í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta, hélt áfram að fara á kostum fyrir sitt lið um helgina þegar hann skoraði áttunda markið sitt á tímabilinu á móti Manchester City.

Því miður fyrir Swansea tapaði það leiknum, 2-1, en velska liðið var búið að vinna tvo leiki í röð áður en kom að tapinu um helgina þökk sé tveimur sigurmörkum Gylfa Þórs.

Sjá einnig:Gylfi skoraði í sjötta mánuðinum í röð

Gylfi skoraði sigurmarkið á móti Southampton í þar síðustu umferð og lagði einnig upp annað mark. Þá var hann búinn að skora sjö mörk og leggja upp sjö og koma með beinum hætti að fjórtán af 28 mörkum Swansea-liðsins.

Hann var þá ásamt Adam Lallana, leikmanni Liverpool, efstur á listanum yfir þá miðjumenn ensku úrvalsdeildarinnar sem búa til flest mörk en Lallana hefur einnig skorað sjö og lagt upp sjö fyrir Liverpool.

Gylfi Þór trónir nú einn á toppi listans eftir markið um helgina. Hann hefur skorað átta mörk og lagt upp sjö og því komið með beinum hætti að fimmtán af 29 mörkum Swansea í deildinni eða ríflega 50 prósent markanna.

Adam Lallana hvorki lagði upp né skoraði um helgina þar sem Liverpool tapaði, 2-0, á móti Hull. Hann er ennþá á fjórtán mörkum en næstir koma Christian Eriksen og Dele Alli hjá Tottenham sem hafa komið að þrettán mörkum fyrir sitt lið.


Tengdar fréttir

Gylfi skoraði í sjötta mánuðinum í röð

Gylfi Þór Sigurðsson skoraði í gær í fyrsta leik Swansea í febrúarmánuði og hann hefur þar með skorað í sex mánuðum í röð í ensku úrvalsdeildinni en því hefur enginn annar íslenskur knattspyrnumaður náð í þessari skemmtilegustu deild í Evrópu.

Gylfi: Aldrei minn vilji að fara

Gylfi Þór Sigurðsson hefur átt stærstan þátt í upprisu Swansea City. Hann kveðst sáttur við sína frammistöðu og líður vel með þá miklu ábyrgð sem er á hans herðum. Það kom ekki til greina að fara frá Swansea.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×