Enski boltinn

Enn eitt markið frá Gylfa dugði ekki til gegn City | Sjáðu mörkin

Stefán Árni Pálsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson skoraði frábært mark fyrir Swansea í 2-1 tapi gegn Manchester City og það á útivelli í ensku úrvalsdeildinni í dag. 

Gabriel Jesus kom City yfir á 11. mínútu leiksins og héldu margir að heimamenn væru að fara rúlla yfir Swansea. 

Staðan í hálfleik var 1-0 en Gylfi Þór var frábær allan leikinn. Hann átti magnaða aukaspyrnu í síðari hálfleiknum sem stefndi beint í vinkilinn. Wilfredo Caballero náði rétt svo að verja boltann í stöngina. 

En á 81. mínútu fékk Gylfi boltann rétt fyrir utan teig. Hann lagði hann vel fyrir sig á vinstri og setti boltann laglega framhjá Caballero, 1-1.

Þetta er þriðji leikurinn í röð sem Gylfi Þór skorar fyrir Swansea og hefur hann gert átta mörk í deildinni á tímabilinu. 

Það leit allt út fyrir að Swansea myndi ná í jafntefli en Gabriel Jesus var ekki á sama máli í uppbótartíma þegar hann kom boltanum yfir marklínuna eftir mistök hjá Fabianski í marki Swansea. 

City er komið upp í þriðja sæti deildarinnar með 49 stig en Swansea er í því 17. með 21 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×