Erlent

Frásagnir af gylltum sturtum og kúgunum Rússa „nornaveiðar“

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump í Trump Tower í gær.
Donald Trump í Trump Tower í gær. Vísir/Getty

Fjölmiðlar í Bandaríkjunum og víðar hafa í nótt flutt fréttir af frásögnum um að yfirvöld í Rússlandi búi yfir skaðlegum upplýsingum um Donald Trump, verðandi forseta Bandaríkjanna. Upplýsingarnar eru sagðar vera bæði af persónulegu og fjárhagslegu tagi og fela meðal annars í sér að Rússar búi yfir myndböndum af Trump með vændiskonum.

Fregnirnar byggja á skýrslu sem skrifuð var af breskum fyrrverandi leyniþjónustumanni sem starfar nú sjálfstætt. Skýrslan er sögð hafa verið í dreifingu í Washington um mánaðaskeið en engum virðist hafa tekist að staðfesta innihald hennar.

Buzzfeed hefur þó birt skýrsluna í heild sinni. svo almenningur í Bandaríkjunum geti séð hana og „tekið eigin ákvörðun“ um trúverðugleika skýrslunnar.

Trump hefur brugðist reiður við og þvertekur fyrir þessar fréttir. Sjálfur segir Trump þetta vera „falskar fréttir“ og „pólitískar nornaveiðar“ og starfsmenn hans eru sammála. Þeir segja demókrata vinna hörðum höndum að því að draga úr trúverðugleika Trump sem forseta.

Talsmaður Vladimir Putin, forseta Rússlands, slær á svipaða strengi og segir málið vera „skáldskap og vitleysu“.Forsvarsmenn leyniþjónusta Bandaríkjanna kynntu þó Barack Obama og Donald Trump samantekt um innihald skýrslunnar þegar þeir funduðu með þeim um tölvuárásir Rússa í síðustu viku. Samkvæmt CNN hefur höfundur skýrslunnar verið metinn áreiðanlegur við fyrri störf sín. Þá er hann sagður búa yfir mikilli reynslu af störfum í Rússlandi.

Alríkislögregla Bandaríkjanna hefur þessar ásakanir og fregnir til skoðunar, eftir að John McCain færði James Comey, yfirmanni FBI, skýrsluna í síðasta mánuði. Því var innihald skýrslunnar kynnt Obama og Trump. Óttast var að innihald hennar myndi leka áður en rannsókn yrði lokið. New York Times segir ákvörðun leyniþjónustanna vera „einstaklega óvenjulega“.

Ljóst er að pólitískir andstæðingar Trump greiddu fyrir gerð skýrslunnar.

Í skýrslunni er því haldið fram að Rússar hafi fylgst með og safnað upplýsingum um Trump um langt skeið. Einnig hafi rússneskir njósnarar útvegað honum upplýsingar um mótframbjóðenda hans, Hillary Clinton.

Meðal annars eru Rússar sagðir eiga myndband og upptökur af Trump og hópi vændiskvenna á hóteli í Moskvu árið 2013. Trump á að hafa gist í sama herbergi og Obama hjónin gistu einu sinni í opinberri heimsókn til Rússlands. Samkvæmt sögusögnunum á Trump að hafa látið vændiskonurnar pissa á hvora aðra í rúminu fyrir framan hann.

Trump hefur margsinnis ferðast til Rússlands á undanförnum árum. Bæði vegna mögulegra viðskipta og til að fylgjast með framkvæmd Miss Universe fegurðarkeppninnar.

Þá segir í skýrslunni að starfsmenn Trump hafi átt í samskiptum við rússneska njósnara varðandi tölvuárásir Rússa.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.