Erlent

Vígamenn ISIS sagðir hafa óhlýðnast Bagdadi

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá Manbij.
Frá Manbij. Vísir/AFP
Vígamenn Íslamska ríkisins eru sagðir hafa óhlýðnast skipunum Abu Bakr Al-Bagdadi, leiðtoga samtakanna. Hann hafði skipað verjendum Manbij að berjast til hins síðasta en þeir flúðu hins vegar.

Yfirmaður herafla Bandaríkjanna í Mið-Austurlöndum, hershöfðinginn Joseph Votel, segir vígamennina hafa flúið undan sókn SDF, sem studd eru af Bandaríkjunum.

Vígamennirnir flúðu frá borginni á um 500 bílum og skýldu þeir sér á bakvið almenna borgara sem þeir neyddu til að ferðast með sér. Þeir flúðu til Jarablus, sem er á landamærum Tyrklands og Sýrlands, en Tyrkir hafa nú tekið bæinn úr höndum ISIS og gerðu þeir það án mikillar mótspyrnu.

Votel segir þetta til marks um að ISIS sé mögulega ekki með jafn sterk tök á vígamönnum sínum og þeir vilja láta.

Á blaðamannafundi var hann spurður út í bardaga á milli tveggja bandamanna Bandaríkjanna, Tyrklands og SDF. Votel sagði framlag beggja aðila vera mikilvægt baráttunni gegn ISIS og að bardagar þeirra á milli hjálpuðu ekki til.

„Við viljum það ekki og við erum að vinna í því að binda endi á ástandið.“ Hann sagði að Bandaríkin myndu einungis styðja við aðgerðir gegn ISIS og ekki hjálpa aðilum að ná fram öðrum markmiðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×