Enski boltinn

Fyrsta skallaþrennan í 19 ár | Sjáðu mörkin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Varnarmenn Swansea City réðu ekkert við Salomón Rondón, framherja West Brom, í leik liðanna í ensku úrvalsdeildinni í gær.

West Brom vann leikinn 3-1 og skoraði Rondón öll þrjú mörk liðsins. Og það sem meira er, öll með skalla.

Rondón varð þar með sá fyrsti í 19 ár, og aðeins annar leikmaðurinn í sögu ensku úrvalsdeildarinnar, sem skorar þrennu með skalla.

Duncan Ferguson kunni að skalla boltann.vísir/getty
Hinn sem hefur afrekað það að skora skallaþrennu er Duncan Ferguson. Skoski framherjinn gerði það í 3-2 sigri Everton á Bolton Wanderers 28. desember 1997. Þess má geta að Guðni Bergsson lék allan leikinn í vörn Bolton þann dag og skoraði fyrra mark liðsins. Arnar Gunnlaugsson kom einnig inn á sem varamaður í leiknum.

Það tók Rondón aðeins 13 mínútur að skora þrennuna í leiknum á The Hawthornes í gær.

Venesúelamaðurinn kom West Brom yfir á 50. mínútu eftir aukaspyrnu Matt Philipps frá hægri. Á 61. mínútu skoraði Rondón sitt annað mark eftir fyrirgjöf Chris Brunt frá vinstri. Tveimur mínútum síðar fullkomnaði Rondón þrennuna með skalla í slá og inn eftir aðra fyrirgjöf frá Brunt. Wayne Routhledge lagaði stöðuna fyrir Swansea á 78. mínútu en það breytti engu um úrslitin.

Rondón hefur skorað sjö mörk á tímabilinu sem er hans annað hjá West Brom. Hann kom til liðsins frá Zenit í Pétursborg fyrir 12 milljónir punda í ágúst 2015.

West Brom hefur verið í góðum gír að undanförnu og er í 7. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 23 stig. Næsti leikur liðsins er gegn Manchester United á laugardaginn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×