Enski boltinn

Marcos Rojo fær að heyra það í ensku blöðunum í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ruddatækling Marcos Rojo í leik Manchester United og Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöldi er uppslátturinn á forsíðum nokkra blaða.

Marcos Rojo fékk bara gult spjald fyrir tveggja fóta tæklingu á Wilfried Zaha í fyrri hálfleik.

Fyrir aðeins níu dögum slapp Marcos Rojo einnig eftir samskonar tæklingu á Everton-manninn Idrissa Gueye.

Gula spjaldið þýðir að Marcos Rojo er frjáls eins og fuglinn með þessa tæklingu enda er litið svo á að búið sé að taka afstöðu til hennar eftir þetta gula spjald dómarans Craig Pawson.

Manchester United tryggði sér 2-1 sigur með marki Zlatan Ibrahimovic tveimur mínútum fyrir leikslok. Það hefði verið erfitt fyrir United að landa öllum þremur stigunum manni færri í 50 mínútur.

Bæði Daily Mirror og The Daily Star eru með tæklingu Argentínumannsins á forsíðum sínum og á þeim myndum, sem sjá má hér fyrir neðan, er enginn vafi á því að hann er með báða sólana á lofti.

Jose Mourinho kom Marcos Rojo til varnar eftir leikinn og hrósaði honum bæði fyrir góða frammistöðu sem og að spila heiðarlegan og hreinan fótbolta.  

Portúgalski stjórinn treysti sér hinsvegar ekki til að tjá sig um tæklinguna sjálfa sem er kannski skiljanlegt.



Það er hægt að sjá svipmyndir frá leiknum í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×