Erlent

Fjölskylda Micah Johnson: Herinn breytti syni okkar

Birgir Örn Steinarsson skrifar
Mikil sorg ríkir enn í Dallas vegna lögreglumannanna fimm sem voru myrtir fyrir helgi.
Mikil sorg ríkir enn í Dallas vegna lögreglumannanna fimm sem voru myrtir fyrir helgi. Vísir/Getty

Foreldrar Micah Johnson sem skaut fimm lögreglumenn til bana í Dallas á föstudag segja árás hans hafa komið sér í opna skjöldu. Þau lýsa honum sem góðum syni sem hafi aldrei verið sá sami eftir að hafa gengið í herinn. Micah var í sex ár í hernum og var í sjö mánuði við störf í Afghanistan.

Delphine Johnson móðir árásarmannsins segir hann hafa breyst mikið eftir hergönguna. Áður hafi hann verið fjörugur og mikið fyrir samneyti við aðra en eftir hergönguna hafi hann lokað sig af frá öllum. Upphaflega langaði Micah að ganga í lögregluna en varð svo staðráðinn í því að ganga í herinn.

Delphine segir son sinn hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum með herinn og að eftir hergönguna hafi vaxið með honum gremja til yfirvalda.

James Johnson faðir árásarmannsins segir son sinn hafa hellt sér í sögu svartra í Bandaríkjunum eftir að hann kom heim frá Afghanistan. Þau segja að hann hafi aðhyllst boðskap svartra öfgasinna en að hann hafi aldrei sýnt þeim að hann bæri hatur til hvítra eða annarra rasa.

„Ég veit ekki hvað ég get sagt við neinn til þess að bæta neitt,“ segir James í sjónvarpsviðtali og berst við tárin. „Ég elska son minn af öllu hjarta en ég hata hvað hann gerði.“

Þetta er í fyrsta skiptið sem fjölskylda Micah Johnson hefur tjáð sig um atburði föstudagsins en viðtalið verður birt í heild sinni á The Blaze sjónvarpsstöðinni næstkomandi miðvikudag.

Brot úr viðtalinu má sjá hér fyrir neðan.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.