Erlent

Pistorius gæti verið á leið aftur í fangelsi

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Oscar Pistorius
Oscar Pistorius Vísir/Getty
Á morgun verður ákveðin refsing í máli suður-afríska spretthlauparans Oscars Pistorius.

Hann gæti verið á leið aftur í fangelsi fyrir að hafa orðið unnustu sinni, Reevu Steenkamp, að bana í febrúar 2013.

Pistorius losnaði úr fangelsi í Pretoriu í Suður-Afríku í október á síðasta ári eftir að hafa afplánað eitt ár af fimm ára dómi sem hann fékk fyrir manndráp af gáleysi, en hann skaut Steenkamp í gegnum baðherbergishurð á heimili sínu, fjórum skotum. Segist hann sjálfur hafa talið að innbrotsþjófur væri á ferli.

Sjá einnig: Hver er Oscar Pistorius?

Áfrýjunardómstóll í Suður-Afríku sneri síðan við dómnum seint á síðasta ári og var Pistorius þá sakfelldur fyrir morð. Minnsta mögulega refsingin fyrir morð er 15 ára fangelsisvist.

Simon Cowell framleiddi heimildamyndina Fallen Hero: Oscar Pistorius, sem er fyrsta sjónvarpsviðtalið við Pistorius sjálfan um atburði næturinnar örlagaríku.

Myndin var frumsýnd þann 24. júní síðastliðinn í Suður-Afríku, en verður sýnd á Stöð 2 í kvöld klukkan 21.20.





Ebba bar vitni.Skjáskot
Íslensk tenging

Málið hefur íslenska tengingu, en Ebba Guðný Guðmundsdóttir, er meðal þeirra sem borið hefur vitni við réttarhöldin yfir spretthlauparanum.

Pistorius var ellefu mánaða þegar báðir fætur hans voru fjarlægðir fyrir neðan hné vegna sjaldgæfs fæðingargalla, en sperrileggi vantaði í báða fætur hans. Það sama á við um son Ebbu, Hafliða, og þannig kynntust fjölskyldur Ebbu og Pistorius, sem Ebba segir mikilvæga fyrirmynd fyrir Hafliða.

Sjá einnig: Ebba Guðný gaf skýrslu í máli Pistoriusar: "Vinátta okkar var yndisleg"

Þá var það íslenski stoðtækjaframleiðandinn Össur sem gerði gervifæturnar sem Pistorius hljóp á. Hann kom oft til Íslands vegna þessa samstarfs.


Tengdar fréttir

Pistorius áfrýjar morðdómi

Pistorius hafði verið dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir manndráp án gáleysis, en þeim dómi var breytt í morð í desember.

Dómi Pistorius breytt í morð

Áfrýjunardómstóll Suður Afríku úrskurðaði að fyrri dómurinn yfir Pistorius hafi verið gallaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×