Enski boltinn

Mourinho búinn að semja við Manchester United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho.
Jose Mourinho. Vísir/Getty
Sky Sports hefur fengið það staðfest að Jose Mourinho sé búinn að ganga frá samningi um að verða næsti knattspyrnustjóri Manchester United.

Það hefur verið beðið í nokkra daga á staðfestingu á þessu en enskir fjölmiðlar hafa skrifað um það síðan skömmu eftir bikarúrslitaleikinn á laugardaginn að Jose Mourinho yrði næsti knattspyrnustjóri Manchester United. Sky segir frá þessu hér.

Jose Mourinho tekur við starfinu af Louis van Gaal sem var rekinn tveimur dögum eftir að hann gerði Manchester United að enskum bikarmeisturum. Mourinho verður þriðji knattspyrnustjóri United síðan að Sir Alex Ferguson hætti eftir 27 ára starf.

Sky segir frá því að lögmenn Manchester United og Jose Mourinho séu enn að ganga frá smáatriðunum í samningnum sem snúa að ímyndamálum en annað er klárt. Það er ekki búið að skrifa undir en öll aðalatriði samningsins eru í höfn.

Jose Mourinho er þannig búinn að ganga frá kaupi og kjörum og lengd samningsins er kominn á hreint eftir viðræður Jose Mourinho við þá Ed Woodward hjá manchester United og  Jorge Mendes, sem er umboðsmaður Mourinho.

Manchester United verður annað liðið sem Jose Mourinho stýrir í ensku úrvalsdeildinni en hann gerði Chelsea þrisvar að Englandsmeisturum í tveimur skorpum en þær enduðu þó báðar af því að hann var rekinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×