Enski boltinn

Conte tekur við Chelsea í sumar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Antonio Conte er næstur á Brúnna.
Antonio Conte er næstur á Brúnna. vísir/getty
Enska úrvalsdeildarfélagið Chelsea tilkynnti í dag að Ítalinn Antonio Conte verður næsti knattspyrnustjóri félagsins, en hann tekur við starfinu af Guus Hiddink sem var ráðinn til bráðabirgða eftir brottrekstur José Mourinho.

Conte, sem er 46 ára gamall, skrifaði undir þriggja ára samning við Chelsea, en hann starfar í dag sem landsliðsþjálfari Ítalíu og tekur við Lundúnarliðinu eftir Evrópumótið í Frakklandi í sumar.

Conte var áður þjálfari Juventus og vann Ítalíumeistaratitilinn þrjú ár í röð áður en hann tók við landsliðinu. Hann spilaði einnig í þrettán ár með Juventus.

Hann hefur áður þjálfað Bari, Atalanta og Siena en Juventus kom hann aftur á kortið með því að vinna Ítalíumeistaratitilinn 2012, 2013 og 2014.

Conte verður fimmti ítalski þjálfarinn í sögu Chelsea en áður hafa þeir Gianluca Vialli, Claudio Ranieri, Carlo Ancelotti og Roberto Di Matteo verið við stjórnvölinn á Brúnni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×