Enski boltinn

Scholes: United má ekki verða eins og Arsenal

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Samsett mynd/Getty
Paul Scholes, fyrrum leikmaður Manchester United, lét sitt gamla lið heyra það eftir tap þess gegn Liverpool, 2-0, í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Evrópudeildar UEFA.

United var afar ósannfærandi í leiknum í gær en þess fyrir utan er Scholes hundóánægður með stöðu liðsins í ensku úrvalsdeildinni.

Sjá einnig: Liverpool með yfirburði gegn Man. United | Sjáðu mörkin

„Manchester United ætti að vera að keppa um sigur í ensku deildinni og Meistaradeild Evrópu hvert einasta tímabil,“ sagði Scholes sem starfar nú sem sérfræðingur hjá BT Sport.

„Þeir hafa eytt 300 milljónum punda og eru í sjötta sæti í deildinni. Þeir eru komnir í Evrópudeildina eftir að hafa mistekist að komast í gegnum auðveldan riðil í Meistaradeildinni.“

„Manchester United ætti að vera lið sem veitir Barcelona, Real Madrid og Bayern München samkeppni.“

Sjá einnig: Van Gaal: Liverpool átti þetta skilið

Hann nýtti svo tækifærið til að bauna á Arsenal. „Það síðasta sem ég vil er að United verði ánægt með að enda í fjórða sæti og vinna bikarinn. Það er það sem Arsenal gerir á hverju ári. Maður sér þá fagna fjórða sætinu í lok tímabilsins. Það má ekki gerast fyrir Manchester United.“

„Ég vona að leikmenn [United] muni ekki stíga fram á Twitter og biðjast afsökunar. Hættið að tjá ykkur á samskiptamiðlum og byrjið að spila fótbolta.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×