Erlent

Segjast geta sannað að Tyrkir kaupi olíu af ISIS

Samúel Karl Ólason skrifar
Rússar segjast hafa eyðilagt stóran hluta olíuframleiðslu ISIS.
Rússar segjast hafa eyðilagt stóran hluta olíuframleiðslu ISIS. Vísir/EPA
Starfsmenn varnarmálaráðuneytis Rússlands segjast búa yfir gögnum sem sanni að Tyrkir séu stærsti kaupandi olíu frá Íslamska ríkinu. Þá segja þeir að Tayyip Erdogan og fjölskylda hans eigi í viðskiptasambandi við hryðjuverkasamtökin.

Starfsmaður ráðuneytisins vísaði til gervihnattarmynda og sagði þær sýna tankbíla frá ISIS keyra til Tyrklands. Hann sagði að Rússar vissu af þremur leiðum þar sem olíu er smyglað inn í Tyrkland frá Sýrlandi. Þá tók hann fram að frekari upplýsingar um aðkomu Tyrkja verði birtar á næstu vikum.

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, hefur sagt að hann myndi segja af sér ef ásakanir Rússa yrðu staðfestar. Lengi hefur verið vitað að smyglarar sem stafa í Tyrklandi og víðar kaupi olíu af ISIS.

Sjá einnig: Íslamska ríkið græðir á tá og fingri á olíu

Varnarmálaráðuneyti Rússlands birti fyrr í dag fjögur myndbönd sem sögð eru sýna loftárásir á olíuvinnslur, dælustöðvar og tankbíla. Þá segir ráðuneytið að loftárásir Rússa hafi dregið olíutekjur samtakanna saman um helming, eða úr þremur milljónum dala á dag í 1,5 milljónir.

Rússar segjast hafa eyðilagt 43 olíuvinnslur, 23 dælustöðvar og rúmlega þúsund tankbíla.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×