Erlent

Erdogan segist munu segja af sér reynist ásakanir Pútín sannar

Atli Ísleifsson skrifar
Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti og Vladimír Pútín Rússlandsforseti munu ekki funda í París.
Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti og Vladimír Pútín Rússlandsforseti munu ekki funda í París. Vísir/EPA
Recep Tayyip Erdogan segir að hann myndi segja af sér, reynist ásakanir Vladimírs Pútín Rússlandsforseta um að Tyrkir kaupi olíu af liðsmönnum ISIS á rökum reistar.

„Ég ætla að grípa sterkt til orða. Ef sannanir eru fyrir slíku, mun göfgi þjóðar okkar krefjast þess að ég láti af embætti,“ sagði Erdogan í samtali við tyrkneska ríkisfjölmiðilinn Anatolia, og lagði áherslu á að Tyrkir fái alla sína olíu með löglegum leiðum.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti sagði í gær að rússnesk yfirvöld hafi fengið frekari upplýsingar um að olían sem liðsmenn ISIS bora í Írak og Sýrlandi sé seld til Tyrklands. Sagði forsetinn þá ákvörðun Tyrkja að skjóta niður rússneska orrustuþotu hafi tengst því að viðhalda þessum olíuviðskiptum.

Mikil spenna er nú í samskiptum Rússlands og Tyrklands og sagðist Pútín ekki ætla að funda með Erdogan í París þar sem þeir eru nú í tengslum við loftslagsráðstefnuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×