Erlent

Hvetur Pútín og Erdogan til að halda friðinn og horfa á sameiginlegan óvin

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Barack Obama á lotfslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í París.
Barack Obama á lotfslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í París. Fréttablaðið/EPA
Barack Obama Bandaríkjaforseti hvetur Rússa og Tyrki til þess að halda friðinn og draga úr þeirri spennu sem verið hefur milli ríkjanna eftir að Tyrkir skutu niður rússneska herþotu.

„Við eigum okkur sameiginlegan óvin,“ sagði Obama í ávarpi, sem hann flutti á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í París í gær, og átti þar við „Íslamska ríkið“, samtök vígamanna sem hreiðrað hafa um sig í Sýrlandi, Írak og víðar. 

„Ég vil tryggja að við einbeitum okkur að þeirri hættu,“ sagði Obama.

Vladimír Pútín notaði sama vettvang á mánudaginn til að saka Tyrki um að hafa skotið niður rússnesku herþotuna til að verja eigin hagsmuni af olíuviðskiptum við vígasveitir Íslamska ríkisins.

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, mótmælir harðlega fullyrðingum Vladimírs Pútín Rússlandsforseta um að tilgangur Tyrkja með því að skjóta niður rússneska herþotu hafi verið að verja olíuviðskipti sín við Íslamska ríkið. Segir hann að Rússar geti ekki slengt þessu fram án þess að leggja fram sannanir:

„Við erum ekki svo óheiðarlegir að kaupa olíu frá hryðjuverkamönnum,“ sagði Erdogan. „Ef það sannast að við höfum í raun gert það, þá mun ég segja af mér.“

Erdogan ítrekar hins vegar gagnrýni sína á loftárásir Rússa á uppreisnarsveitir Túrkmena í norðvestur­hluta Sýrlands. Túrkmenar eru skyldir Tyrkjum og njóta óskoraðs stuðnings Tyrklandsstjórnar.

Þeir Obama, Pútín og Erdogan hafa allir tekið þátt í ráðstefnunni í París ásamt flestum öðrum þjóðarleiðtogum heims.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×