Enski boltinn

Bild: Schweinsteiger samdi við United

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Bastien Schweinsteiger er á leið til Manchester United samkvæmt þýska dagblaðinu Bild. Mun hann hafa skrifað undir þriggja ára samning við félagið.

Schweinsteiger er þrítugur og hefur spilað með Bayern München allan sinn feril. Hann á nákvæmlega 500 mótsleiki að baki með félaginu í öllum keppnum og á þar að auki 111 landsleiki að baki með þýska landsliðinu. Hann er í dag fyrirliði þýska landsliðsins.

Bild segir að Schweinsteiger muni þéna um tíu milljónir evra á samningstímanum, jafnvirði tæpra 1,5 milljarða króna.

Schweinsteiger hefur verið orðaður við United um nokkurn tíma og samkvæmt fréttum ytra var talið líklegt að Argentínumaðurinn Angel Di Maria væri á leið til Bayern í skiptum fyrir þýska miðjumanninn. Því var staðfastlega neitað af Karl-Heinz Rummenigge, stjórnarformanni Bayern, í dag.

Schweinsteiger á eitt ár eftir af núverandi samningi sínum við Bayern. Hann lék sinn fyrsta leik fyrir aðallið félagsins árið 2002 en síðan þá hefur hann átta sinum orðið þýskur meistari, sjö sinnum bikarmeistari, orðið heimsmeistari með Þýskalandi sem og heimsmeistari félagsliða með Bayern.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×