Erlent

1.200 lögreglumenn leita að David Sweat

Birgir Olgeirsson skrifar
Richard Matt og David Sweat.
Richard Matt og David Sweat. VÍSIR/NEW YORK STATE POLICE
Rúmlega tólf hundruð manns hafa leitað að morðingjanum David Sweat í Bandaríkjunum í dag. Hefur leitin miðast við 56 ferkílómetra svæði á milli bæjanna Malone og Duane í New York-fylki.

Sweat og félagi hans Richard Matt struku í Clinton-fangelsinu í Dannemora, sem er um áttatíu kílómetrum frá leitarsvæði dagsins, fyrir þremur vikum. Matt var felldur af lögreglu í bænum Elephant´s head í gærkvöldi. Eftir að Matt hafði verið skotinn til bana ákvað lögreglan að setja upp vegatálma á svæðinu til að reyna að króa Sweat af.

Ef ekki hefði verið fyrir skothvelli og hósta, þá væri Richard Matt líklega enn á flótta. Þetta sagði lögreglustjóri Franklin-sýslu, Kevin Mulverhill, við bandarísku fréttastofuna CNN fyrr í dag.

Ferðalangar urðu varir við háværan hvell þegar þeir óku nærri bænum Malone í gær. Þeir töldu að hjólbarði hefði sprungið en við nánari skoðun kom annað í ljós. Matt hafði þá skotið á húsbíl ferðalangana og er ekki vitað af hverju.

Ferðalangarnir gerðu lögreglu viðvart sem hóf strax rannsókn. Við leit á svæðinu komu þeir að kofa í bænum Duane. Þegar lögreglumennirnir fóru inn í kofann fundu þeir lykt af byssupúðri. Þegar þeir leituðu fyrir utan kofan heyrðu þeir einhvern hósta. Þeir skipuðu viðkomandi að gefa sig fram en Matt varð ekki við skipun lögreglumanna sem hófu skothríð á hann. Kom í ljós að hann hafði á sér haglabyssu.

Lögregluyfirvöld vonast til að félagi Matt, David Sweat, geri einnig mistök sem leiða til handtöku hans. „Hann hefur verið á flótta í þrjár vikur. Hann er þreyttur og svangur. Hann á eftir að gera mistök,“ hefur CNN eftir Mulverhill.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×