Erlent

Skömm bíði þeirra sem bjargað var úr haldi Boko Haram

Bjarki Ármannsson skrifar
Hluti þeirra sem var bjargað úr haldi Boko Haram.
Hluti þeirra sem var bjargað úr haldi Boko Haram. Vísir/EPA
Móttökur þeirra hundruða stúlkna og kvenna sem nígeríski herinn hefur að undanförnu bjargað úr klóm hryðjuverkasamtakanna Boko Haram gætu einkennst af smánun og fordæmingu. Þetta segja félagsstarfsmenn í Nígeríu sem fréttastofan AP hefur rætt við. Konurnar voru í haldi Boko Haram í marga mánuði áður en þeim var bjargað.

„Guð má vita hvað hefur verið gert við þær,” segir Babatunde Osotimehin, sem vinnur að því að veita konunum og stúlkunum læknis- og sálfræðiaðstoð á vegum Sameinuðu þjóðanna. „Við þurfum að vinna með þeim og koma þeim aftur í dagsdaglegan raunveruleikann.”

Sjá einnig: „Þetta var ekki manneskjum bjóðandi“

Það verður sennilega ekki auðvelt, miðað við reynslu „Chibok-stúlknanna,” skólastúlknanna sem sumum hverjum tókst að sleppa úr haldi Boko Haram eftir að þeim var rænt frá skóla sínum. Þær þurftu að þola mikla smánun og nafnaköll þegar þær snéru aftur til síns heima, svo mikla að sumar flúðu bæi sína og fjölskyldur.

Í síðustu viku sagðist svo ríkisstjóri Borno, ríkisins sem mest hefur orðið fyrir barðinu á árásum Boko Haram, óttast það að konurnar sem bæru börn hryðjuverkamanna undir belti eftir að þeim var nauðgað í haldi gætu verið að „ala nýja kynslóð hryðjuverkamanna.” Kallaði hann eftir því að faðerni yrði kannað í öllum tilvikum.

Sjá einnig: Milljón börn á flotta undan Boko Haram

Slík ummæli, frá jafn háttsettum manni og ríkisstjórinn er, telja talsmenn Mannréttindavaktarinnar „mjög óheppileg” og líkleg til að ýta undir smánun í garð kvennanna. 


Tengdar fréttir

Hernaðarbandalag myndað gegn Boko Haram

Öllum bækistöðvum hryðjuverkasamtakanna Boko Haram sem vitað er um verður eytt á næstu sex vikum, gangi áform nígerískra stjórnvalda eftir.

Flúði Boko Haram en er neitað um hæli á Íslandi

Nígeríski herinn er sakaður um að hafa drepið fjölda óbreyttra borgara og kveikt í sveitaþorpum í árásum gegn Boko Haram í síðustu viku. Nígerískur flóttamaður, sem flúði heimaland sitt vegna árása samtakanna og hefur beðið eftir hæli hér á landi í rúmlega þrjú ár, segir ástandið hræðilegt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×