Enski boltinn

Fyrrverandi markvörður Man Utd: Valdes er fullkominn kostur fyrir félagið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Victor Valdes vann allt sem hægt er að vinna með Barcelona.
Victor Valdes vann allt sem hægt er að vinna með Barcelona. vísir/getty
Raimond van der Gouw, fyrrverandi markvörður Manchester United, segir að Victor Valdes geti fyllt skarð Davids De Gea, ákveði sá síðarnefndi að fara til Real Madrid eins og svo margt bendir til.

„Hann er fullkominn fyrir United, með alla sína reynslu og hæfileika,“ sagði van der Gouw sem var í herbúðum United á árunum 1996-2002.

„Hann getur spilað í toppliði í 3-4 ár til viðbótar,“ bætti van der Gouw við.

Valdes, sem skrifaði undir 18 mánaða samning við United í janúar, lék sinn fyrsta leik fyrir félagið þegar United og Arsenal skildu jöfn, 1-1, á sunnudaginn. Hann kom þá inn á fyrir De Gea, sem fór meiddur af velli, og lék síðustu 16 mínútur leiksins.

Valdes, sem er 33 ára, lék 535 leiki með Barcelona á árunum 2002-2014 og vann á þeim tíma allt sem hægt er að vinna. Hann ákvað hins vegar að yfirgefa herbúðir Börsunga eftir síðasta tímabil og róa á ný mið.

Þrátt fyrir að hafa fengið lítið að spila með United segist Valdes vera sáttur hjá félaginu.

„Ég er mjög ánægður að vera hér. Ég á eitt ár eftir af samningnum mínum og við sjáum svo hvað gerist,“ sagði Valdes sem gæti tekið markmannsstöðunni á Old Trafford í sumar ef De Gea færir sig um set til heimaborgarinnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×