Erlent

Þýska leyniþjónustan sögð hafa njósnað um innlend fyrirtæki

Bjarki Ármannsson skrifar
Angela Merkel Þýskalandskanslari.
Angela Merkel Þýskalandskanslari. Vísir/AP
Þjarmað er að Angelu Merkel Þýskalandskanslara eftir ásakanir þess efnis að þýska leyniþjónustan (BND) hafi hjálpað Bandaríkjastjórn að njósna um þýsk fyrirtæki. Skýrsla BND sem lekið var í síðustu viku gefur til kynna að aðilar í Frakklandi og innan ESB hafi verið undir smásjánni hjá Þjóðverjunum.

BND hefur oft starfað með bandarísku þjóðaröryggisstofnunni NSA í gegnum árin. Nú er hinsvegar ljóst að stofnanirnar tvær fylgdust ekki bara með hugsanlegum hryðjuverkamönnum. Nýja skýrslan gefur til kynna að fylgst hafi verið með bæði utanríkisráðuneytinu og forsetahöllinni í Frakklandi, ásamt fyrirtækinu Airbus og Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.

Sigmar Gabriel, varakanslari Þýskalands, hefur kallað eftir því að ítök BND verði að fullu rannsökuð og að stofnunin verði látin upplýsa þingið um alla þá sem fylgst var með að frumkvæði NSA. Hann hefur jafnframt spurt Merkel út í það hvort þýsk fyrirtæki hafi verið þar á meðal en kanslarinn neitar því staðfast.

Merkel hefur tjáð sig um lekann og samstarf BND við NSA. Hún segir að ríkisstjórnin geri allt hvað hún geti við að aðstoða BND við að standa vörð um Þjóðverja og að stofnunin sé í stöðugu samstarfi við aðrar leyniþjónustur. Fyrst og fremst NSA.

Greint var frá því árið 2013 að Merkel hefði sjálf orðið fyrir barðinu á njósnum Bandaríkjastjórnar. Þá sagði kanslarinn að það væri hreinlega ekki í boði að njósna um vinaþjóðir sínar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×