Erlent

Þúsundir fylgdu Dan Uzan til grafar

Atli Ísleifsson skrifar
Rabbíninn Bent Lexner segir að Uzan hafi að öllum líkindum komið í veg fyrir enn stærri harmleik.
Rabbíninn Bent Lexner segir að Uzan hafi að öllum líkindum komið í veg fyrir enn stærri harmleik. Vísir/Hørsholm 79:ers/AFP
Þúsundir manna fylgdu hinum 37 ára Dan Uzan til grafar í Kaupmannahöfn fyrr í dag. Uzan var öryggisvörður í bænahúsi gyðinga og annað fórnarlamb árásarmannsins Omar El-Hussein í dönsku höfuðborginni um síðustu helgi.

Uzan var í athöfninni hylltur sem hetja. Hann spilaði körfubolta, var fótboltamarkmaður og var lýst sem manni sem bauð sig alltaf fram fyrir liðið. Það hafi því ekki þótt undarlegt að hann hafi varið laugardagskvöldi sínu sem öryggisvörður þegar fram fór fermingarveisla í bænahúsi gyðinga við Kristalsgötu í Kaupmannahöfn.

Rabbíninn Bent Lexner segir að Uzan hafi að öllum líkindum komið í veg fyrir enn stærri harmleik.

Helle Thorning-Schmidt forsætisráðherra var ein þeirra sem sótti athöfnina fyrr í dag.

Uzan ólst upp í Hvidovre, norður af Kaupmannahöfn, átti danska móður og ísraelskan föður. Í frétt Dagens Nyheter segir að fjölskyldan hafi verið virk innan samfélags gyðinga og sótti Uzan meðal annars skóla gyðinga, Carolinerskólann, í Kaupmannahöfn.

Uzan var stór og mikill vexti, tveir metrar á hæð og herðabreiður. Hann spilaði körfubolta með Hørsholm 79:ers og var markmaður liðsins Hakoah um margra ára skeið.

Hitt fórnarlamb árásarmannsins var hinn 53 ára leikstjóri Finn Nørgaard. Þeir fimm lögreglumenn sem særðust í árásum helgarinnar hafa allir verið úrskrifaðir frá sjúkrahúsi.

Helle Thorning-Schmidt forsætisráðherra var ein þeirra sem sótti athöfnina fyrr í dag.Vísir/AFP

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×