Innlent

Íslendingur í Kaupmannahöfn: „Maður er pínu skelkaður“

Birgir Olgeirsson skrifar
Ljósmyndarinn Helgi Ómarsson býr í Kaupmannahöfn
Ljósmyndarinn Helgi Ómarsson býr í Kaupmannahöfn Vísir/afp
„Maður er pínu skelkaður,“ segir Helgi Ómarsson ljósmyndari vegna atburða gærdagsins og næturinnar í Kaupmannahöfn þar sem tveir féllu í skotárásum. Einn maður var skotinn í höfuðið nærri bænahúsi gyðinga við Krystalsgötu í miðbæ Kaupmannahafnar um miðnætti. Fyrr um daginn lést fertugur Dani í skotárás við Krudttönden-leikhúsið. Sænski listamaðurinn Lars Vilks telur að hann hafi verið skotmarkið en ráðstefna um guðlast og tjáningarfrelsi fór fram í leikhúsinu.

„Ég hélt mér inni í gær. Ég ætlaði út en hætti við,“ segir Helgi sem býr í Kaupmannahöfn.

„Ég bý sem betur fer ekki nálægt þessu en kærastinn minn var úti í gær og hann komst ekki heim af því að lestarstöðinni var lokað og lögreglan var úti um allt. Þetta var svolítið klikkað laugardagskvöld.“

Kári Gunnarsson.
Var á barnum 

Kári Gunnarsson tryggingastærðfræðingur býr í Kaupmannahöfn en lögreglan felldi mann nærri lestarstöðinni á Norðurbrú í grennd við heimili Kára. Hann var á bar í bænum á öðrum tímanum í nótt þegar honum bárust skilaboð frá móður sinni. „Hún spurði hvar ég væri og hvort ekki væri allt í lagi. Þá fór maður í símann og skoðaði hvað væri að gerast,“ segir Kári sem hafði heyrt af árásinni við Krudttönden-leikhúsið fyrr um daginn en lét það ekki stöðva för sína í bæinn.

„Þegar maður svo frétti að þetta væri í miðbænum, ekkert alltof langt frá þá ákvað maður að fara heim og flestir sem voru með mér komu sér heim þegar þetta fréttist.“


Tengdar fréttir

Skotárás í Kaupmannahöfn

Allt að fjörutíu skotum var hleypt af við menningarhúsið Krudttønden á Austurbrú í Kaupmannahöfn í dag og er gríðarlegur viðbúnaður hjá lögreglu sem segir fertugan Dana hafa látið lífið í árásinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×