Íslenski boltinn

Pétur fer ekki með Rúnari til Lilleström

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Pétur vann fimm stóra titla hjá KR með Rúnari Kristinssyni. Hér fagnar Pétur Íslandsmeistaratitlinum 2013.
Pétur vann fimm stóra titla hjá KR með Rúnari Kristinssyni. Hér fagnar Pétur Íslandsmeistaratitlinum 2013. Vísir/Vilhelm
„Ég er ekki að fara út til Lilleström með Rúnari,“ segir Pétur Pétursson en hann hefur verið aðstoðarþjálfari Rúnars Kristinssonar hjá KR undanfarin ár.

Það hefur legið lengi í loftinu að Rúnar tæki við norska liðinu Lilleström. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins heldur Rúnar utan til Noregs í dag til þess að skrifa undir samning við félagið. Hann vildi taka Pétur með sér en af því verður ekki.

„Það stóð til að ég færi með honum í þetta dæmi. Það var of mikill munur á milli mín og félagsins í samningaviðræðunum. Við náðum bara ekki saman. Mér fannst það ferlega leiðinlegt því þetta var spennandi dæmi. Ég óska Rúnari aftur á móti alls hins besta og vonandi gengur þetta vel hjá honum. Ég naut þess að vinna með honum og þetta var góður tími sem við áttum saman með KR,“ segir Pétur.

Siggi Raggi orðaður við starfið

Rúnar þarf því að finna sér nýjan aðstoðarþjálfara. Sigurður Ragnar Eyjólfsson hefur verið orðaður í þá stöðu en hann vildi ekkert tjá sig um málið er eftir því var leitað í gær.

Pétur er búinn að vera aðstoðarþjálfari hjá KR síðan 2009. Hann var þá Loga Ólafssyni til aðstoðar og hélt áfram sínu starfi er Rúnar Kristinsson tók við um mitt sumar árið 2010. Rúnar og Pétur unnu samtals fimm stóra titla með KR. Tvo Íslandsmeistaratitla og þrjá bikarmeistaratitla. Þeir virðast því hafa náð afar vel saman.

Pétur og Rúnar Kristinsson.Vísir/Anton Brink
Þegar Rúnar hætti með KR-liðið hætti Pétur líka enda ætlaði hann með Rúnari til Lilleström eins og hann segir fyrr í viðtalinu. Pétur hefur kunnað vel við sig í þjálfun undanfarin ár og hefur áhuga á því að halda áfram.

„Ég er bara atvinnulaus og í leit að vinnu núna. Ég hef mikinn áhuga á því að vera áfram í boltanum. Ég hef verið í þessu lengi og kominn með gríðarlega reynslu á síðustu árum,“ segir Pétur en hann var einnig aðstoðarþjálfari Ólafs Jóhannessonar er Ólafur var landsliðsþjálfari.

Er til í að vinna

„Ég er til í að vinna ef ég fæ einhvers staðar starf,“ segir Pétur en er hann til í aðalþjálfarastarf á nýjan leik?

„Ég hef oft haft áhuga á því. Það hefur skipt máli hvað hefur komið upp á borðið. Ég var aðalþjálfari hjá mörgum liðum á sínum tíma þar sem stundum gekk vel og stundum illa. Þannig er bara boltinn," segir Pétur.

„Ég hef haft gaman af því að vera hjá sama félaginu lengi. Ég hef verið hjá KR í sjö ár og notið mín vel. Það eru ekki margir þjálfarar sem státa af því að hafa verið eins lengi hjá sama liðinu nema kannski Heimir Guðjónsson. Ég er aftur á móti atvinnulaus núna og óska eftir vinnu einhvers staðar,“ sagði Pétur léttur og hló dátt.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×