Erlent

Norður-Kórea hótar Bandaríkjunum

Samúel Karl Ólason skrifar
Kim Jong-un er formaður Þjóðaröryggisráðs Norður-Kóreu.
Kim Jong-un er formaður Þjóðaröryggisráðs Norður-Kóreu. Vísir/AFP
Þjóðaröryggisráð Norður-Kóreu segist hafa sannanir fyrir því að stjórnvöld í Bandaríkjunum hafi komið að framleiðslu kvikmyndarinnar The Interview. Þeir segja að Washington hafi ætlað að nota myndina sem áróður gegn Norður-Kóreu.

Sjá einnig: Sony hættir við að sýna The Interview.

„Sérstakur mannréttindasendiboði utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna hvatti framleiðendur myndarinnar til að halda öllum atriðunum sverta virðuleika æðstu stjórnar Norður-Kóreu og hann sagði að þau væru nauðsynleg til að ergja yfirvöld landsins.“ Þetta kemur fram í tilkynningu frá Pyonyang sem birt var á vef KCNA, ríkismiðli landsins.

Tilkynningin er vægast sagt stóryrt og gefur hún aðra mynd af árásinni á Sony og afleiðingum hennar en hingað til hefur komið fram. Í fyrstu setningu tilkynningarinnar eru Bandaríkin kölluð „rotþró óréttlætis“.

Sjá einnig: FBI sakar Norður-Kóreu um tölvuárásirnar á Sony.

Þar segir að staðreyndir bendi til þess að Bandaríkin hafi tekið þátt í hryðjuverkum með því að hafa staðið að framleiðslu The Interview á bakvið tjöldin. Með því að benda á Norður-Kóreu sem sökudólg, er Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, sagður vera að koma sök á annan.

„Getur hann virkilega breytt yfir glæpi sem hann hefur framið með því að reyna að svo miklum krafti að falsa sannleikann og að breyta hvítu í svart.“

Sjá einnig: Lítur á tölvuárás Norður-Kóreu sem skemmdarverk ekki árás.

Segja Guardians of Peace vera stuðningsmenn Norður Kóreu

Þjóðaröryggisráðið segir í tilkynningunni að yfirvöld Norður-Kóreu viti ekki hverjir hakkararnir sem ganga undir nafninu Guardians of Peace eru, né viti þeir hvar þeir búi. „Við getum þó með sanni sagt að þeir styðji og finni til með Norður-Kóreu.“

Kim Jong-un er formaður Þjóðaröryggisráðs Norður-Kóreu.

Sjá einnig: Hóta þeim sem munu horfa á The Interview.

Ráðið hótar Hvíta húsinu, Pentagon og Bandaríkjunum öllum og kalla þau „rotþró hryðjuverka“. Þá segja þeir að sagan sýni að réttlæti vinni alltaf á endanum og að þeir sem standi með Bandaríkjunum munu eiga von á miskunnarlausri refsingu.

Þjóðaröryggisráðið vill að Bandaríkin biðji Norður-Kóreu afsökunar.


Tengdar fréttir

BitTorrent vill birta The Interview

Fjölmargir hafa beðið Sony um að birta kvikmyndina á netinu, en stóru efnisveiturnar hafa ekki stigið fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×