Viðskipti erlent

Sony hættir við að sýna The Interview

Atli Ísleifsson skrifar
Seth Rogen og James France eru í aðalhlutverkum myndarinnar.
Seth Rogen og James France eru í aðalhlutverkum myndarinnar. Vísir/AFP
Kvikmyndafyrirtækið Sony hefur hætt við sýningu myndarinnar The Interview en til stóð að hún yrði frumsýnd á jóladag. Ákvörðunin er tekin eftir að stærstu kvikmyndahúsakeðjur Bandaríkjanna tilkynntu að hún yrði ekki tekin til sýninga.

Hópur hakkara sem kalla sig Guardians of Peace höfðu áður birt tölvupósta framkvæmdastjóra kvikmyndadeildar Sony auk annarra gagna þar sem öllum þeim sem hugðust sjá myndina er hótað. Fyrr í dag var tilkynnt að frumsýningu myndarinnarinnar í New York hefði verið frestað.

Ríkisstjórn Norður-Kóreu, sem grunuð er um að standa að baki GOP, hefur mótmælt myndinni frá því að í ljós kom að hún fjallar um tvo sjónvarpsmenn sem fá það verkefni að ráða Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu af dögum.

Í frétt BBC kemur fram að forsvarsmenn Sony séu mjög hryggir vegna tilraunanna til að stöðva dreifingu myndarinnar. „Í ljósi ákvörðunar meirihluta kvikmyndahúsa að ekki taka myndina The Interview til sýninga þá höfum við ákveðið að hætta við frumsýningu myndarinnar þann 25. desember.“

Þá segir að Sony virði og skilji ákvörðun samstarfsaðila sinna og deili að sjálfsögðu áhuga þeirra á að tryggja öryggi starfsmanna og kvikmyndahúsagesta. „Við styðjum kvikmyndagerðarmenn okkar og tjáningarfrelsi þeirra og eru gríðarlega vonsviknir vegna þessarar niðurstöðu.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×