Erlent

Obama segir það mistök að hafa hætt við sýningu myndarinnar

Atli Ísleifsson skrifar
Barack Obama Bandaríkjaforseti ræddi við blaðamenn í dag.
Barack Obama Bandaríkjaforseti ræddi við blaðamenn í dag. Vísir/AFP
Barack Obama Bandaríkjaforseti hefur heitið því að Bandaríkjastjórn muni bregðast við tölvuárás Norður-Kóreumanna á Sony Pictures vegna kvikmyndarinnar The Interview.

Forsetinn segir það hafa verið mistök af hálfu Sony að hafa hætt við sýningu myndarinnar, en upphaflega til stóð að frumsýna hana í kvikmyndahúsum á jóladag.

„Við munum bregðast við,“ sagði Obama við blaðamenn án þess þó að fara út í smáatriði. „Við getum ekki búið við samfélag þar sem einhver einræðisherra einhvers staðar úti í heimi getur beitt ritskoðun í Bandaríkjunum.“

Í frétt breska ríkisútvarpsins kemur fram að Obama segi það mikilvægt að vernda bæði tölvukerfi í einkageiranum og hinum opinbera frá árásum sem geta bæði haft umtalsverð efnahagsleg og samfélagsleg áhrif.

Kvikmyndin The Interview fjallar um tvo sjónvarpsmenn sem fá það verkefni að ráða Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, af dögum.

Bandaríska alríkislögreglan FBI greindi frá því fyrr í dag að norður-kóresk stjórnvöld stæðu á bakvið tölvuárásirnar á Sony síðustu vikur. Stofnunin segir rannsókn þeirra hafa sýnt fram á tengsl árásanna við aðila tengda norður-kóreskum stjórnvöldum.

Talsmenn Sony segja að enn standi til að sýna myndina, þó það verði á öðrum vettvangi.

Ákvörðun um að hætta við sýningu myndarinnar var tekin eftir að stærstu kvikmyndahúsakeðjur Bandaríkjanna tilkynntu að hún yrði ekki tekin til sýninga hjá þeim. Tölvuþrjótarnir höfðu þá hótað öllum þeim sem myndu leggja leið sína í kvikmyndahús til að sjá myndina.


Tengdar fréttir

Team America tekin úr sýningu

Kvikmyndahús ætluðu að sýna brúðumyndina í stað The Interview, en dreifingaraðili myndarinnar bannaði það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×