Erlent

Segist hafa komið sprengjum fyrir í Sydney

Samúel Karl Ólason skrifar
Byssumaðurinn sem heldur gíslum á kaffihúsi í Sydney segist hafa komið tveimur sprengjum fyrir á kaffihúsinu og tveimur öðrum í fjármálahverfi borgarinnar. Hann hefur verið í sambandi við lögreglu og fer fram á að fá að tala við Tony Abbot, forsætisráðherra Ástralíu.

Talið er að maðurinn sé einn að verki en gíslarnir eru ekki taldir vera fleiri en 30. Fimm gíslar sluppu fyrr í morgun en tveir þeirra sögðu fjölmiðlum frá því að byssumaðurinn sagðist hafa komið fyrir fjórum sprengjum.

Þegar gíslarnir flúðu varð maðurinn mjög æstur og öskraði á þá gísla sem eftir sátu.

Þungvopnaðir lögreglumenn hafa tæmt nærrliggjandi byggingar og umkringja kaffihúsið.Vísir/AFP
Maðurinn er talinn vera vopnaður haglabyssu og sveðju. Lögreglan hefur borið kennsl á manninn og segja þeir að hann sé þekktur af lögreglu. Fjölmiðlar hafa verið beðnir um að nafngreina hann ekki í bili.

Sky News segja frá því að lögreglan skoði nú hvort að maðurinn hafi notað samfélagsmiðla í símum gísla, til þess að koma kröfum sínum á framfæri. Einnig hafi hann látið gísla hringja í fjölmiðla fyrir sig.

Auk þess að vilja fund með forsætisráðherranum hefur maðurinn beðið um að fá afhentan fá Íslamska ríkisins. Nú þegar er svartur fáni í glugga kaffihússins og á honum stendur: Það er aðeins einn guð, Allah, og Múhameð er sendiboði hans.

Lögreglan segir samningamenn hafa verið í sambandi við manninn, en vilja ekkert segja um hvað hann ætli sér. Þar að auki hefur hann haft samband við fjölmiðla.

Tony Abbott sendi frá sér tilkynningu þar sem hann sagði að þjóðaröryggisráð Ástralíu myndi funda um málið og að lögreglan væri vel búin til að bregðast við ástandinu.


Tengdar fréttir

Gíslataka í Sydney

Vopnaður maður, eða menn, heldur nú fólki í gíslingu á kaffihúsi í Sydney, Ástralíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×