Enski boltinn

Upson með Leicester í úrvalsdeildina

Tómas Þór Þórðarson. skrifar
Matthew Upson fékk ekki samning í B-deildinni þannig hann fór bara í úrvalsdeildina.
Matthew Upson fékk ekki samning í B-deildinni þannig hann fór bara í úrvalsdeildina. Vísir/Getty
Miðvörðurinn Matthew Upson, fyrrverandi leikmaður Arsenal, West Ham og enska landsliðsins í fótbolta, snýr aftur í ensku úrvalsdeildina á næsta tímabili með nýliðum Leicester.

Upson fékk ekki nýjan samning hjá Brighton & Hove Albion þannig Leicester, sem vann ensku B-deildina í ár, nýtti sér tækifærið og samdi við þennan 35 ára gamla reynslumikla miðvörð.

Upson spilaði síðast í úrvalsdeildinni fyrir tveimur árum með Stoke en var lánaður til Brighton seinni hluta tímabilsins 2012/2013. B-deildarliðið fékk hann svo alveg til sín síðasta sumar og gerði við hann eins árs samning.

Landsliðsmiðvörðurinn fyrrverandi þótti standa sig mjög vel með Brighton á tímabilinu en hann hefur náð sér að fullu af meiðslum sínum og spilaði í heildina 47 leiki. Liðið komst í umspil um sæti í úrvalsdeildinni en tapaði þar samanlagt í tveimur leikjum fyrir Derby.

Upson á að baki 21 landsleik fyrir England en hann fór með liðinu á HM í Suður-Afríku fyrir fjórum árum þar sem hann skoraði annað af tveimur landsliðsmörkum sínum á ferlinum í 4-1 tapi gegn Þýskalandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×