Enski boltinn

Liverpool býður í Lambert

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Rickie Lambert gæti verið á leið til Liverpool.
Rickie Lambert gæti verið á leið til Liverpool. Vísir/getty
Enskir fjölmiðlar greina frá því í dag að Liverpool hafi gert Southampton tilboð í framherjann RickieLambert sem skoraði 13 mörk í ensku úrvalsdeildinni í vetur.

Sky Sports greindi fyrst frá því að kaupverðið sé um níu milljónir punda en nú segja blaðamenn Times og BBC frá því á Twitter að það sé nær fjórum milljónum auk árangurstengdra greiðslna.

Uppgangur Lamberts, sem er 32 ára gamall, á síðustu árum hefur verið hreint lygilegur. Aðeins eru fjögur ár síðan hann var leikmaður Bristol Rovers í ensku C-deildinni. Þar áður spilaði hann með liðinu í neðstu deild.

Hann gekk í raðir Southampton 2009 og sló strax í gegn. Hann skoraði 51 mark í 90 leikjum í C-deildinni og 27 mörk í 42 leikjum í B-deildinni tímabilið sem Southampton komst upp í úrvalsdeildina.

Hann hefur nú skorað 28 mörk í 75 leikjum í ensku úrvalsdeildinni, mörg hver eftir að koma inn á sem varamaður.

Lambert var valinn í enska landsliðshópinn sem fer á HM í sumar og var þar tekinn fram yfir menn á borð við Andy Carroll og Jermaine Defoe.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×