Erlent

Sagði upp í beinni útsendingu

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Mynd/Skjáskot
Fréttalesari sjónvarpsstöðvarinnar Russia Today, sem flytur fregnir frá sjónarhóli Rússa á ensku um allan heim í gegnum gervihnött, sagði upp í beinni útsendingu í gær.

Stöðin er kostuð af Rússneska ríkinu og hefur gefið sig út fyrir að flytja fréttir með öðrum áherslum en hinar vestrænu fréttastöðvar. Mörgum hefur stöðin þótt ganga erinda Rússa í umfjöllun sinni um Úkraínu og innrás Rússa á Krímskaga.

Sumir starfsmenn stöðvarinnar virðast vera sammála þeim áskökunum en fréttaþulan Liz Wahl, sem stjórnaði fréttaþáttum frá útíbúi RT í Bandaríkjunum ákvað að segja upp í beinni útsendingunni á stöðinni í gær.

Wahl sagði að sér ofbyði fréttaflutningur stöðvarinnar af ástandinu á Krímskaga og hvernig stöðin reyndi í sífellu að hvítþvo aðgerðir Pútíns forseta. Þess vegna sæi hún sér ekki annað fært en að segja upp.

Yfirmenn Russia Today segja í yfirlýsingu að þessi opinbera sýning Wahl sé ekkert annað en hún að kynna sjálfa sig með mikilli sýningu.

Þetta er í annað sinn á stuttum tíma sem fréttakona á stöðinni gagnrýnir hana en fyrr í vikunni fordæmdi fréttakonan Abby Martin það sem hún kallaði innrás Rússa á Krímskaga. Viðbrögð stjórnenda stöðvarinnar í það skiptið voru þau að segja að Martin væri ekki inn í málunum og því hefði verið ákveðið að senda hana á Krímskaga til að hún geti kynnt sér málin betur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×